Úlfar Snæfjörð Ágústsson er látinn, 83 ára að aldri.
Kaupmaðurinn og lengi fréttaritari Morgunblaðsins á Ísafirði lést á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði í gær, 83 ára að aldri. Úlfar fæddist 3. júlí 1940 en foreldrar hans voru Guðmundína Bjarnadóttir og Guðmundur Guðni Guðmundsson. Úlfar var ættleiddur af Ágústi Guðmundi Jörundssyni (1906-1964). Eiginkona Úlfars var Jósefína Guðrún Gísladóttir en þau gengu í hjónaband árið 1960. Jósefína lést árið 2018. Saman áttu hjónin synina Gaut Ágúst, fæddan 1961, látinn 1978, Gísla Elís, fæddan 1969, Úlf Þór, fæddan 1974, og Axel Guðna, fæddan 1978. Barnabörnin eru 9.
Fram kemur í frétt mbl.is af andlátinu, að Úlfar hafi verið fæddur og uppalinn á Ísafirði. Eftir að gagnfræðaskólanum lauk fór Úlfar á sjóinn en um tvítugt hóf hann verslunarstörf í verslun Jóns Bárðarsonar á Ísafirði, sem hann keypti síðan árið 1968. Í kjölfarið keypti hann Hamraborg, í félagi við fleiri menn en alla tíð síðan var Úlfar kenndur við verslunina. Í framhaldinu opnuðu þeir þrjár verslanir til viðbótar og voru þeir Úlfar og Heiðar Sigurðsson fyrirferðarmestir. Síðar var rekstrinum skipt upp en Hamraborg féll í hlut Úlfars. Rak hann Hamraborg að mestu til ársins 2000 en þá keyptu synir hans, Gísli og Úlfur reksturinn. Úlfar átti einnig og rak hótel, var umboðsmaður Arnarflugs og Íslandsflugs og stofnaði ferðaskrifstofu sem seldi utanlandsferðir. Í um 25 ár starfaði Úlfar einnig sem fréttaritari Morgunblaðsins á Ísafirði.
Samkvæmt mbl.is voru samfélags- og menningarmál Úlfari ofarlega í huga og fékk Ísafjörður að njóta hans krafta á því sviði en hann var á tímabili formaður Tónlistarfélags Ísafjarðar, var í Lions-félagi í árátugi og um tíma umdæmastjóri hreyfingarinnar á Íslandi.