Hvorki erlendir ferðamenn né aðrir gestir hafa verið með vesen og vandræði vegna eldgossins á Reykjanesi að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, þegar hann var spurður út í slíkt af mbl.is. Hann segir að fólk hafi sýnt varkárni og fylgt reglum yfirvalda.
Hann segir verkefni lögreglu mestmegnis hafa gengið á sama hátt og í síðasta gosi. Varðandi aðkomu á svæðið hefur lögreglan lokað Suðurstrandarvegi og hraun rann yfir Grindavíkurveg í nótt. „Í augnablikinu er eina aðkomuleiðin inn og út úr Grindavík um Nesveg,“ sagði lögreglustjórinn.
„Við erum ágætlega mönnuð, bæði inni í samhæfingarstöð og eins í aðgerðastjórnstöð í Reykjanesbæ. Við drógum aðeins úr fjölda viðbragðsaðila í nótt og svo mæta menn bara ferskir til vinnu í dag, vonandi gengur þetta gos fljótt yfir með svipuðum hætti og síðast svo nú verðum við bara að bíða og sjá til,“ sagði Úlfar að lokum