Ný kvikmynd sem hverfist um sjálfsvíg og þá þöggun og skömm sem hefur umlukið slík mál í gegnum árin, verður frumsýnd þann 20. apríl næstkomandi. Kvikmyndin ber nafnið „Út úr myrkrinu“ og er ætlað að vekja athygli á málefninu og hvetja til opinnar umræðu um það samfélagsmein sem um ræðir. Myndin er eftir þá Helga Felixson og Titti Johnson, sem hafa getið sér gott orð í kvikmyndaiðnaðinum og áður gert myndir sem sýndar hafa verið um allan heim.
Í upplýsingum frá aðstandendum kvikmyndarinnar segir að frá því gerð myndarinnar hófst árið 2017 hafi í það minnsta 211 einstaklingar fallið fyrir eigin hendi á Íslandi.
„Þagnarhjúpur og skömm hefur umlukið sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir í gegnum aldirnar. Það skýrist eflaust af þeirri staðreynd að litið var á sjálfsvíg sem glæp, samanber tungutakið þar sem sumir tala um að „fremja sjálfsmorð“ en sögnin að fremja vísar í glæpsamlegt athæfi og það sama á við orðið morð. Fyrr á öldum var hægt að gera eigur þeirra sem tóku eigið líf upptækar og greftrun þeirra í kirkjugörðum var bönnuð og Ísland var þar engin undantekning,“ segir í tilkynningu frá þeim Helga Felixsyni og Titti Johnson.
„Talið er að 500 til 600 sjálfsvígstilraunir séu gerðar á Íslandi árlega og að á milli 30 til 50 manns deyi á ári vegna sjálfsvígs. Hvað er að, hvað veldur? Það er greinilega eitthvað verulega mikið að í samfélagi sem sættir sig við þessa staðreynd.
Þessi kvikmynd miðlar reynslu aðstandenda sem hafa misst ástvin, sem tekið hefur eigið líf og hvernig þeir hafa komist út úr myrkri og þöggun. Myndinni er ætlað að hvetja til opinnar umræðu um efni sem hingað til hefur verið umlukið dulúð og þrúgandi þögn.“
Helgi Felixson og Titti Johnson eiga að baki langan feril í kvikmyndagerð og hafa áður gert myndir eins og Guð blessi Ísland, Vive la France og Undir stjörnuhimni, sem allar hafa verið sýndar víða um heim og hlotið umtalsverða athygli. Kvikmyndirnar hafa verið sýndar í sjónvarpi og á fjölda kvikmyndahátíða.
Tónlistin í kvikmyndinni „Út úr myrkrinu“ er eftir tónskáldið og Óskarsverðlaunahafann Hildi Guðnadóttur. Frumsýning verður þann 20. apríl næstkomandi í Bíó Paradís.
Hér má horfa á stiklu úr kvikmyndinni:
https://bioparadis.is/kvikmyndir/ut-ur-myrkrinu/