Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg er greint frá því að borgin hafi frestað verkefninu „Fyrr á frístundaheimili“ en verkefnið snerist um að börn sem voru að ljúka leikskólagöngu dveldu á frístundaheimili yfir sumartímann og þar til grunnskólagangan hæfist. Hófst verkefnið sumarið 2023 en hefur verið frestað og segir borgin að það þarfnist frekari undirbúnings.
Gagnrýnendur verkefnisins segja að það sé einfaldlega verið færa vandamál varðandi mönnun og skráningu barna á leikskólunum borgarinnar yfir á frístundaheimili. Stjórnendur frístundaheimila sem Mannlíf hefur rætt við síðan verkefnið hófst eru allir á einu máli verkefnið að hafi algjörlega misheppnast og fagna að því hafi verið frestað. Sömu stjórnendur vonast einnig til þess að verkefnið verði alfarið lagt niður.
„Það er mikill skilningur hjá stjórnendum og starfsfólki að Reykjavík sé að reyna nýja hluti til takast við leikskólavandamálið en þetta er ekki rétta leiðin til þess. Þarna er einfaldlega verið að færa vandamálið af einu skólastigi yfir á annað. Það hjálpar ekki neinum nema stjórnmálamönnum sem skortir langtímasýn,“ sagði einn stjórnandi frístundaheimilis borgarinnar sem vildi ekki koma fram undir nafni.
Reykjavík telur verkefnið hafa heppnast vel
„Markmið tilraunaverkefnisins var að auðvelda börnum að taka það stóra skref að hefja grunnskólagöngu og skapa rými fyrir starfsfólk til að mæta börnunum og foreldrum í næði áður en skólastarfið hæfist af fullum krafti. Einnig var markmið verkefnisins að flýta inntöku yngstu barnanna í leikskóla.
Verkefnið heppnaðist vel en var umfangsmikið og þarfnast frekari undirbúnings og aðlögunartíma. Áfram verður unnið að mati á verkefninu og hvort það verði innleitt um alla borg eða að hluta þegar fram líða stundir,“ segir í tilkynningu borgarinnar um frestunina.