Ásdís Kristjánsdóttir, umdeildur bæjarstjóri Kópavogsbæjar, er ósátt með mikið þyrluflug yfir bænum.
Eins og margir höfuðborgarsvæðinu vita hefur þyrluflug aukist talsvert undanfarnar vikur. Er þar helst að þakka eldgosinu á Reykjanesi. Ekki eru allir sáttir með þessa auknu þyrluumferð og hafa íbúar höfuðborgarsvæðisins margir kvartað undan hávaða. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, tekur undir þessar kvartanir.
„Við höfum sannarlega fengið kvartanir frá Kópavogsbúum og höfum verulegar áhyggjur af þessu,“ sagði Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs, í samtali við Morgunblaðið en Ásdís hefur verið mikið milli tannanna á fólki undanfarna daga vegna leikskólamála í bæjarfélaginu.
„Við teljum að hljóðmælingar muni leiða í ljós að hljóðmengun fari yfir leyfileg mörk,“ sagði hún um næstu skref í málinu.
„Þetta er gríðarleg hljóðmengun. Það skiptir öllu máli að finna staðsetningu sem hentar bæði Kópavogi og nærliggjandi sveitarfélögum svo að hljóðmengun sé sem minnst og helst engin,“ en Ásdís telur Hólmsheiði og Sandskeiðsflugvöll ekki heppilega valkosti en þeir staðir hafa verið nefndir í umræðunni um nýja staðsetningu fyrir þyrluflug.