Laugardagur 2. nóvember, 2024
2.5 C
Reykjavik

Umdeildur pistill um Sigga Gunnars tekinn úr birtingu: „Tókst að verða sjálfum sér til skammar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurjón Magnús Egilsson, ritstjóri Miðjunnar, tók umdeildan pistil úr birtingu á Miðjunni en pistlahöfundur sakar hann um að vega að tjáningarfrelsi sínu.

Jóhann Þorvarðarson hefur skrifað alls 1100 aðsenda pistla sem birst hafa á Miðjunni en sá nýjasti, sem ber heitið Ég er mestur, ég er bestur og ég er allt sem ég vil vera, féll ekki í kramið hjá ritstjóra Miðjunnar og að því er virðist ekki hjá lesendum heldur. Pistillinn fjallar að miklu leiti um Sigurð Þorra Gunnarsson, fjölmiðlamann á Ríkisútvarpinu, sem stundum er kallaður Siggi Gunnars og meinta spillingu ríkismiðilsins. Greinin birtist þriðja desember en um hádegisbilið í dag fékk Jóhann stuttan tölvupóst frá Sigurjóni þar sem honum er tjáð að margar athugasemdir hefðu borist vegna pistilsins og því hafi hann beðið Sigurð Þorra afsökunar og tekið pistilinn úr birtingu.

Jóhann er allt annað en ánægður með ákvörðun ritstjórans og telur hann vega að tjáningarfrelsi sínu. „Ég fékk engar málefnalegar útskýringar fyrir ákvörðun SME enda er greinin fyrst og fremst gagnrýni á spillingu sem ríkir innan RÚV og misnotkun á aðstöðu tiltekinna aðila innan stofnunarinnar. Greinin rekur líka hegðun Sigurðar Þorra Gunnarssonar og hvernig hann er allt um liggjandi í nánast öllum íslenskum skemmtiþáttum, sem RÚV er með á dagskrá. Greinin er auðlesin og þarfnast engrar útskýringa. Í greininni er enginn skáldskapur eða níð heldur útlistun á atvikum sem festar hafa verið á ríkisfilmur. Ég leyfi mér aðeins að hæðast að SÞG, en það er allt innan velsæmismarka.“ Þetta kemur fram í tölvupósti til Mannlífs frá Jóhanni.

Og hann heldur áfram: „Ég tel að SME, sem hingað til hefur gert sig út sem rannsóknarblaðamann sem vill stinga á spillingarkýli, hafa látið undan utanaðkomandi  þrýstingi og þá kemur hirðin í kringum SÞG upp í hugann ásamt öflum innan RÚV og fleiri. Síðan botnaði SME sjálfan sig með því að senda SÞG afsökunarbeiðni.“

Þá segir Jóhann að Sigurjón hafi ekki gert neinar athugasemdir við greinina enda hafi hún verið inni frá þriðja desember. „Ég hef skrifað hátt í 1.100 greinar inn á Miðjuna með farsælum hætti hygg ég, en allt í einu á að taka tjáningarfrelsið af mér og þagga niður spillingu innan RÚV. Öðruvísi mér áður brá.“

- Auglýsing -

Mannlíf heyrði í Sigurjóni sem vildi lítið tjá sig um málið. „Þetta er bara ákvörðun sem ég tók.“ Aðspurður hvort hann hafi tekið greinina úr birtingu vegna þess að þar kæmi fram gagnrýni á RÚV svaraði Sigurjón hissa: „Gagnrýni á RÚV? Nei, nei.“ En þegar hann var spurður hvort það gæti verið vegna þess að hann teldi að í greininni væri að finna persónuníð svaraði Sigurjón: „Ja, mér fannst svona óþarflega að honum vegið, ég er búinn að segja Jóhanni það.“

Aðspurður hvort Jóhann muni skrifa meira fyrir Miðjuna segir ritstjórinn ekki svo vera. „Nei, hann vill hætta.“

Hér fyrir neðan má lesa hinn umdeilda pistil í heild sinni:

- Auglýsing -

Ég er mestur, ég er bestur og ég er allt sem ég vil vera

Þessar ljóðlínur Megasar komu upp í hugann þegar ég var að horfa á Vikuna með Gísla Marteini í fyrrakvöld. Þá var hinn athyglissjúki Sigurður Þorri Gunnarsson mættur fyrir framan ríkismyndavélarnar. Svona eins og að það sé ekki nóg að hafa hann við hljóðnema Rásar 2 alla virka daga.

Fyrr á árinu þá spilaði hann stóra rullu í íslenska júróvisjóninu. Athyglissýkin í þeirri lotu náði yfir að velja lög í keppnina og mæta í lúna þáttinn Alla leið. Síðan var hann mættur í smóking til að stjórna úrslitunum í beinni útsendingu frá  Gufunesinu með tilheyrandi maga- og brjóstasveiflum. 

Leiðin lá þar á eftir til Liverpool þar sem aðal keppnin í júró fór fram. Tókst Sigurði Þorra að verða sjálfum sér til skammar í tvígang án þess að roðna. Fyrst með því að klæðast eins og ballerína upp á hótelherbergi og neyða íslenska sjónvarpsáhorfendur til að horfa á herlegheitin. Hann gaf nefnilega ekki út súnamí flóðaviðvörun um að tveggja metra hátt ölduáreiti væri í aðsigi. Fólk komst ekki undan í tæka tíð. Uppátækið var alveg laust við að vera kímið, en það vó svo sannarlega að unnendum góðra háttvísi og balletts. 

Til að bæta gráu ofan á svart þá tókst Sigurði Þorra að fá fulltrúa Íslands í keppninni til að klæðast búningi Liverpool og gera sig kjánalega á tiltekinni krá þar í borg. Þetta átti víst að vera spaugilegt, en gestum ölhússins stökk bara ekki bros á vör. Horfðu á misheppnaða gjörninginn með vanþóknun.

Í haust var Sigurður Þorri síðan mættur enn og aftur í sjónvarp og nú sem spyrill í þáttaröð vegna 40 ára afmælis Rásar 2 þar sem hann dillaði æki sínu í sífellu. Svo þreytulegt var uppátækið að söngvari hljómsveitarinnar Diktu, heimilislæknirinn Haukur Heiðar Hauksson, fannst nóg um. Spurði hann Sigurð Þorra í hæðnistón hvort hann hefði lært að dansa. Andliti Sigurðar varð sem steinrunnið við hæðnina. Augljóst var að hann hafði enga þolinmæði fyrir því að gestir þáttarins væru búnir að fá meira en nóg af endurteknum brjósta- og magahristingum spyrilsins. Ætli Sigurður hafi ekki hætt að útvarpa lögum Diktu í kjölfarið í einu allsherjar móðgunarskyni? 

Sigurður Þorri var nýlega mættur í enn aðra þáttaröðina og nú sem álitsgjafi í Fyrst og fremst þar sem landsmenn fengu hnefafylli af skringilegum skoðunum hans á íslenskum dægurflugum. Og til að fara nú alls ekki fram hjá neinni kynslóð þá er hann líka dómari í þáttunum Jólastjarnan, sem einnig eru sýndir á laugardagskvöldum. Í þeim er leitað að barni yngri en 14 ára til að vera jólastjarnan 2023. 

Svo í fyrrakvöld, eins og sagði, þá var hann auðvitað mættur fyrir framan myndavélarnar og lét ekki lítið fyrir sér fara frekar en fyrri daginn. Á einum tímapunkti þá var hann nærri því búinn að hrifsa þáttastjórnina af Gísla Marteini. Sigurður talaði auðvitað mest allra í þættinum og var með ruðning gagnvart öðrum gestum. Verst var þó að hann var alveg laus við að sýna af sér kæti í fyrirganginum. Svo þegar lokaatriði þáttarins með FM Belfast var að renna sitt skeið á enda og viðtalsgestir Gísla þustu upp á svið þá tók hinn kastljóssjúki sér stöðu fyrir miðju sviði svo skugga lagði yfir hljómsveitarmeðlimi. Honum skortir augljóslega alla hófsemi.  

Ég spyr hvort RÚV sé að verða einhver einkamiðill Sigurðar Þorra, sem veitir honum ótæpilegan aðgang að sviðsljósinu á kostnað jafnræðis gagnvart öðru fólki, sem áhuga hefur á að hasla sér völl í sjónvarpi. Og spyrja verður hvort Sigurður Þorri og félagar séu að misnota aðstöðu sína innan RÚV því ekki eru það sjáanlegir hæfileikar sem koma manninum í alla sjónvarpsþættina. Það er öðru nær. Að einn og sami maðurinn sé allt um liggjandi er afar óeðlilegt ástand sem kallar á rannsókn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -