Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Umhverfissóðar í Breiðholti: „Mér er eiginlega orða vant“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Vandinn er umgengni sóðanna, þetta kemur alltaf aftur,“ segir íbúi í Seljahverfi um sóðaskap og rusl við gáma í hverfinu.

Við Seljabraut í Breiðholti eru grenndargámar staðsettir, þar sem fólk getur komið með pappa, plast og gler til endurvinnslu, og fatnað til þess að gefa í söfnun. Umgengni við gámana hefur verið afar slæm og er íbúum á svæðinu mörgum nóg boðið.

Þessi var tekin nýlega við gámana.

Íbúar sem blaðamaður Mannlífs ræddi við segja að um sé að ræða stórt vandamál þar sem ákveðið fólk hlaði rusli á svæðið, löngu eftir að gámarnir eru orðnir fullir. Þannig safnist upp rusl sem síðan á það til að fjúka út um allt svæðið í vindasömu veðri, eins og mikið hefur verið um í vetur.

Umhverfissóðarnir hafa þó ekki látið það duga að hrúga upp endurvinnanlegu rusli í kringum gámana, eftir að allt er orðið fullt. Þannig hefur rusl af ýmsu öðru tagi skotið upp kollinum á svæðinu. Þar er meðal annars um að ræða barnabílstóla, þvottavélar og fleira sem ætti að vera öllum ljóst að eigi þar engan samastað.

„Það er alveg stórmerkilegt að fólk fari ekki bara með þetta drasl sitt á Sorpu,“ segir einn íbúanna í samtali við blaðamann. Flokkunarstöð Sorpu er staðsett rétt fyrir ofan svæðið, í Jafnaseli, eða í um 800 metra fjarlægð. Það gerir um það bil þriggja mínútna akstur. Ef fólk fer gangandi með pokana sína, er aðeins um tíu mínútna göngu að ræða og má ætla að ef fólk geti gengið að grenndargámunum geti það sömuleiðis gengið í Sorpu.

- Auglýsing -

Ástandið við gámana var orðið verulega slæmt í gær, annan í páskum, en í dag var búið að tæma gámana og hreinsa í kring um þá. Þó ekki það rusl sem hafði fokið, sem enn er á víð og dreif um svæðið.

Rusl sem fokið hefur um svæðið í kringum gámana, sem vitanlega hverfur ekki þegar gámarnir eru tæmdir.

„Það er búið að kvarta undan umgengni við grenndarstöðvarnar í Breiðholti í þó nokkurn tíma,“ segir annar íbúi. „Ein stöðin við Arnarbakka var fjarlægð vegna þessa en það dugði ekki til. Rusl er enn skilið eftir þar.“

Svona er iðulega um að lítast við Arnarbakka, þótt gámarnir hafi verið fjarlægðir. Fólk kemur samt sem áður með hina ótrúlegustu hluti þangað.

Þegar Facebook-síða íbúa Breiðholts er skoðuð kemur í ljós að málið er mikið til umræðu þar. Þar vill einn íbúi meina að þetta komi til vegna gjaldskrárhækkunar og þeirrar staðreyndar að nú fái fólk sektir fyrir að koma með svarta poka á Sorpu. Annar íbúi gefur lítið fyrir þá skýringu og segir vandamálið hafa verið til staðar löngu áður en sú reglugerð var samþykkt. „Svona sóðaskapur frá fíflum er ekki tilkominn vegna einhverra sekta.“

- Auglýsing -

„Mér er eiginlega orða vant,“ segir annar íbúi á síðunni. Af hverju er fólk svona miklir sóðar? Sorpa nokkur hundruð metra frá þessum gámum við Seljabrautina – ef fólk heldur áfram að skilja draslið sitt eftir á þennan hátt verða þessir gámar fjarlægðir eins og gerðist við Arnarbakkann – viljum við það?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -