Undirskriftarsöfnun er hafin þar sem þess er að krafist að RÚV dragi Ísland úr Eurovision verði Ísrael ekki meinuð þátttaka í Eurovision í ár. Allir keppendur í Söngvakeppninni hafa samþykkt að taka þátt úti í Sviss, vinni þeir.
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir stendur fyrir undirskriftarsöfnun þar sem þess er krafist að RÚV dragi Ísland úr Eurovision í ár, verði Ísrael ekki meinuð þátttaka í Eurovision sem fram fer í Sviss í maí næstkomandi.
Eftirfarandi texti er skrifaður á síðu undirskriftarsöfnunarinnar:
„Við undirrituð förum fram á að RÚV dragi Ísland úr Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2025 verði Ísrael ekki meinaður aðgangur að keppninni. Framganga Ísraels í Palestínu stríðir gegn yfirlýstum friðarboðskap Söngvakeppninnar. Yfir fjörutíu þúsund manneskjur hafa verið drepnar í sprengjuregni Ísraels á Palestínu. Ísrael hefur eyðilagt nánast öll sjúkrahús og skóla á Gaza, jafnað heilu þorpin og borgirnar við jörðu, brennt tjaldbúðir flóttafólks, myrt óbreytta borgara þar á meðal: börn, barnshafandi konur, sjúklinga, lækna, hjálparstarfsfólk alþjóðlegra stofnana, kennara og blaðamenn. Þrátt fyrir þetta fær Ísrael að taka þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2025 í stað þess að þeim sé meinuð þátttaka eins og Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu.“
Mannlíf heyrði í Rúnari Frey Gíslasonar verkefnastjóra sjónvarps og spurði hann hvort til greina kæmi fyrir RÚV að taka af skarið og krefjas þess að Ísrael verði vikið úr keppni í ár, rétt eins og þegar finnska ríkisútvarpið (YLE), krafðist þess að Rússland yrði meinuð þátttaka vegna innrásarinnar í Úkraínu.
„Við fylgjumst náið með allri þróun mála og stillum saman strengi fyrst og fremst með kollegum okkar á Norðurlöndum, eins og hingað til og áður hefur komið fram,“ sagði Rúnar Freyr í skriflegu svari sínu til Mannlífs.
Í fyrra gaf einn af þáttakendum Söngvakeppninnar, Sunna Kristinsdóttir, þá yfirlýsingu að hún ætlaði sér ekki að keppa í Eurovision, ef ske kynni að hún stæði upp sem sigurvegari, vegna meðferðar Ísraela á Palestínumönnum á Gaza. Þá fór Ásdís María Viðarsdóttir, einn af höfundum sigurlagsins í fyrra, Scared of Heights, ekki með hópnum út í Eurovision, af sömu ástæðum. En hvernig standa málin í ár? Er einhver keppandanna sem stíga á svið annað kvöld, búinn að gefa það út að hann hyggist ekki taka þátt í Eurovision?
Rúnar Freyr segir svo ekki vera: „Nei, keppendur í ár hafa öll samþykkt að taka þátt í Eurovision, sigri þau Söngvakeppnina. Eins og alltaf – nema í fyrra – fylgir það því að taka þátt í Söngvakeppninni.“