Þriðjudagur 29. október, 2024
6.4 C
Reykjavik

Unga fólkið reiðubúnara til að leita aðstoðar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölskyldan er lifandi fyrirbæri. Hún vex þegar nýir einstaklingar koma til sögunnar og dregst saman þegar ástvinir hverfa á braut. Í raun er réttast að tala um fjölskyldur, frekar en fjölskyldu, þar sem samsetning þeirra er fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr. Allar eiga þær það þó sameiginlegt að ganga í gegnum erfiða tíma og krefjandi áskoranir.

„Það er þráðurinn hjá okkur að hjálpa fólki að eiga betra samtal og betri samskipti, það er ýmislegt sem leysist úr læðingi við það. Og að hjálpa fólki að þokast áfram; það er mjög algengt að þegar fólk kemur til okkar þá er það fast í einhverju samskiptamynstri sem virkar ekki.“ Þetta segir Rannveig Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar.

Fjölskylduþjónustan veitir einstaklingum, pörum og fjölskyldum ráðgjöf um hvaðeina sem snýr að samskiptum og Rannveig segir hópinn sem leitar sér aðstoðar fjölbreyttan en meðal algengustu viðfangsefnanna séu parasambandið og stjúpfjölskyldur.

„Það er langalgengast að fólk komi af því að því líður illa í sambandinu, annaðhvort af því að það vill laga sambandið eða hjónbandið eða af því að það er búið að taka ákvörðun um skilnað eða er í skilnaðarhugleiðingum,“ segir Rannveig. Hún segir algengara að unga fólkið leiti sér aðstoðar í tíma. „Það er meira vakandi og þykir eðlilegra og sjálfsagðara að vinna með sambandið. Eldra fólkið reynir frekar að þrauka og þreyja og svo kannski er það orðið of seint.“

En hvað er það sem veldur erfiðleikum í samböndum?

„Við finnum fyrir því að fólk er undir miklu álagi. Ungt fólk er að hefja sinn starfsferli og er kannski með langa menntun að baki. Það á erfitt með að finna svigrúm til að sinna fjölskyldulífinu og það er krefjandi og oft á kostnað ástarsambandsins því börnin verða að ganga fyrir. Og ég tala nú ekki um þegar fjárhagurinn er erfiður.“

- Auglýsing -

Rannveig segir fjárhagsáhyggjur raunar algenga ástæðu þess að fólk leitar sér aðstoðar. Þær og álagið á einstaklinginn og fjölskylduna í nútímasamfélagi. „Ef allir hefðu laun sem hægt væri að lifa af og sveigjanleikinn í atvinnulífinu væri meiri þá myndi það létta mikið undir,“ segir hún og nefnir sem dæmi fyrirkomulagið hjá mörgum fyrirtækjum á Norðurlöndunum þar sem fólki gefst kostur á að vinna heima einn dag í viku.

„Það getur hjálpað mjög mikið að fá nýja sýn“

„Fólk kemur líka þegar það hefur lent í áföllum eða sorg og það er einnig mjög algengt að fólk vilji fá aðstoð í tengslum við stjúpfjölskylduna og stjúptengsl. Það verður allt flóknara þegar fólk er að hefja sambúð í annað eða jafnvel þriðja sinn og það fylgja börn báðum megin,“ segir Rannveig. Hún segir svokallaðar samsettar fjölskyldur á leið með að verða algengasta fjölskylduformið en það krefjist mikils sveigjanleika og ekki síst skilnings á líðan barnanna. Hvað varðar börnin segir hún kvíða eitt stærsta vandmálið sem þau glíma við.

- Auglýsing -

En hvað með pörin, hvernig er hægt að hjálpa þeim?

„Vanlíðan í sambandinu snýst um það að tilfinningar hafa dofnað, að ástin sé ekki jafnstór þáttur og var í upphafi. Fólk saknar þess og vill reyna að vinna í því í þeirri von að það sé hægt að laga sambandið. Þetta er stundum áfall og erfitt að koma ef þú ert að hugsa um að ljúka sambandinu. En þá getur hvoru tveggja gerst; að við aðstoðum fólk til að finna lausn eða við að hefja nýjan kafla,“ segir Rannveig.

„Það getur hjálpað mjög mikið að fá nýja sýn og hreyfast eitthvað áfram. Stór þáttur í því þegar við eigum við einhvern vanda að etja er að við erum föst í einskonar gildru og sjáum ekki leiðirnar út.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -