Nóttin var nokkuð erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt dagbók hennar. Fimm aðilar gistu fangageymslu eftir nóttina.
Í Hafnarfirði barst tilkynning um aðila sem braut spegla í bifreið en ekki kemur fram í dagbókinni hvort aðilinn hafi náðst en næsta víst er að óheppni mun elta hann næstu sjö árin.
Annar aðili var handtekinn grunaður um rúðubrot í Hafnarfirði og fleiri skemmdarverk. Var hann óviðræðuhæfur og vistaður í fangageymslu þar til ástand hans skánar.
Tilkynning barst lögreglu vegna unglinga sem fóru inn í verslunarkjarna í Grafarholti en allir voru þeir á bak og burt þegar lögreglu bar að garði.
Nokkuð var um að lögreglan hafi ekki fundið aðila sem tilkynnt var um, þar á meðal einn sem var í annarlegu ástandi í Laugardalnum, mann sem ógnaði fólki hnífi í Háaleitis og Bústaðahverfinu í Reykjavík og ungmenni í annarlegu ástandi í miðborginni.
Þá barst lögreglu tilkynning um yfirstandandi innbrot í tónlistarhús í miðborginni en ekki var vitað meira um málið þegar dagbókin var skrifuð.
Þá stálust krakkar í sundlaug í hverfi 116.