„Sonur minn lenti upp á sjúkrahúsi með sjúkrabíl þar sem hann hafði verið að drekka orkudrykki en hann náði ekki að koma heim og hneig niður á miðri leið og hringdi sjálfur á sjúkrabíl,“ skrifar selfyssingurinn Magga Stína í Facebook-hópnum Íbúar á Selfossi í gærkvöldi en Vísir fjallaði fyrst um málið.
Þar segir hún frá því að fjórtán ára sonur hennar hafi keypt orkudrykkina á sjálfsafgreiðslukassa í Krambúðinni á Selfossi þar sem starfsmenn höfðu engin afskipti af honum. „Þessir blessuðu sjálfsafgreiðslukassar geta verið ágætir og sérstaklega í asanum á þessum árstíma en eitt sem mér finnst vera vandamál og það eru börnin sem geta verslað sjálf og þá hvað sem er eins og óæskilega drykki,“ skrifar Magga og bendir á að það þurfi aukið eftirlit með sjálfsafgreiðslukössunum. Sonur Möggu hringdi sjálfur á neyðarlínuna eftir að hann fann fyrir óþægindum. Hann er nú kominn heim og er á batavegi.