Töluverður erill var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu seinnipart gærdags og í nótt. Þó nokkrar þeirra beindust að ólögráða einstaklingum. Tilkynning barst um yfirstandandi hópslagsmál í neðra Breiðholti. Þegar lögreglu bar að voru þar 18 til 20 einstaklingar sem öll flokkast sem ungmenni.
Frá miðborginni barst tilkynning um ungmenni undir lögaldri sem voru að versla áfengi á skemmtistað.
Í Grafarvogi barst tilkynning um ungmenni í annarlegu ástandi.
Lögreglan mátti aðstoða starfsmann Strætó þegar farþegi hafði kveikt sér í kannabis í vagninum. Ekki er vitað um afleiðingar reykingamannsins en vel er vitað og hefur verið í fjölda ára að reykingar í almenningssamgöngum eru ekki leyfilegar. Þess má geta að í 2. tölublaði Einingar frá 1. febrúar 1953 var ritað: „Það ætti að vera sjálfsögð kurteisi að biðja um leyfi til að reykja í viðurvist ókunnugra og í annarra manna híbýlum. Í bíl er sjálfsagt að biðja um leyfi annarra farþega, en í almenningsvögnum, innan bæjar og utan, ættu reykingar alls ekki að vera leyfðar.“
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna aðila sem gekk á hurðir á hóteli í miðborginni. Aðilinn var rólegur þegar lögreglu bar að og var hann fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem hann reyndist eftirlýstur í kerfum lögreglu.
Allmargir ökuþórar voru stöðvaðir af lögreglu grunaðir um akstur undir áhrifum.