Innlögnum sjúklinga, 25 ára og yngri, á sjúkrahúsið Vog hefur fækkað til muna síðustu ár. SÁÁ greindi frá þessu og segir einnig fækka umtalsvert í yngsta hópnum, 19 ára og yngri.
Árið 2011 voru 656 innlagnir einstaklinga 25 ára og yngri en fækkað hefur jafnt og þétt í hópnum og náði fjöldinn lágmarki árið 2020 þegar 330 innlagnir voru á þessu aldursbili. Í fyrra fjölgaði lítillega í hópnum en þá voru innlagnirnar 390 talsins. Samkvæmt tilkynningu SÁÁ er þessi fækkun fólgin í því að sérstaklega hefur verið hugað að snemmtæku inngripi fyrir ungmenni með fíknisjúkdóm og sé ekki tengd Covid-19 faraldrinum.
Árið 2019 voru 2137 innlagnir á 1624 einstaklingum á sjúkrahúsið Vog, 369 þeirra voru 25 ára eða yngri.
Tilkynninguna í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.
„Ánægjulegu fréttirnar af unga fólkinu
Það er mikið fagnaðarefni að áfram fækkar innlögnum á sjúkrahúsinu Vogi í yngsta hópnum 19 ára og yngri. Sama er að segja um þróunina í heild fyrir 25 ára og yngri. Á síðustu tíu árum hefur innlögnum einstaklinga í þessum aldurshópi fækkað hægt og bítandi eins og sjá má í meðfylgjandi grafi. Á það er vert að benda að sérstaklega hefur verið hugað að snemmtæku inngripi fyrir ungmenni 25 ára og yngri með fíknsjúkdóm og er fækkunin því ekki vegna skerðingar á aðgengi í Covid-19 faraldrinum.“