Liðin nótt var ekki friðsöm ef marka má dagbók lögreglu. Lögregla greinir þar frá tveimur alvarlegum ofbeldisbrotum sem áttu sér stað í Reykjavík. Svo voru þrír innbrotsþjófar gripnir glóðvolgir í Kópavogi og Árbæ. Mikið var um ölvunar- og vímuakstur, líkt og flestar helgar.
Stuttu fyrir miðnætti barst lögreglu tilkynning um líkamsárás í hverfi 108, Bústaðahverfi. Lögregla segir að þar hafi „ungur drengur í annarlegu ástandi“ ráðist á tvær stúlkur og reynt að ræna þær. Aðra þeirra kýldi hann í andlitið. Stúlkunnar hlupu til foreldra sinna og elti drengurinn. Því næst réðst hann að föður sem hann kýldi. Búið var að handtaka piltinn borgaralega þegar lögregla kom á vettvang. Lögregla segist hafa vistað drenginn á viðeigandi stofnun í samráði við foreldri og barnavernd.
Rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi gekk svo karlmaður berserksgang í Nettó í Lágmúla. Hann er sagður hafa ráðist á kassastarfsmann með ofbeldi og offorsi. Hann er sagður hafa stolið fé úr kassanum og svo flúið akandi af vettvangi. Lögregla kom þó auga á bíl hans skömmu síðar og veitti eftirför. Maðurinn flúði á miklum hraða og og að hluta til á móti umferð. Þetta endaði með árekstri á Reykjanesbraut, nærri Smáralind. Engin slys urðu á fólki og var maðurinn handtekinn og færður í fangageymslu.
Lögregla gómaði svo samtals þrjá menn í tveimur innbrotum í nótt. Annars vegar í iðnaðarhúsnæði í Kópavogi um hálfníuleytið og svo hjólhýsi í Árbæ um hálfeitt í nótt. Tveir menn voru handteknir á í Kópavogi og einn í Árbænum.