Í mars 2007 var ungur íslenskur aðgerðarsinni færður til yfirheyrslu í Hebron, eftir að hann forðaði palestínskum skólakrökkum frá grjótkasti ísraelskra jafnaldra sinna.
Haukur Hilmarsson, einn mesti hugsjónamaður Íslandssögunnar að margra mati, var færður til yfirheyrslu á lögreglustöð í Hebron, Vesturbakkanum í Palestínu í mars árið 2007. Hafði hann verið með danskri vinkonu sinni á gangi í palestíngu borginni Hebron, og séð hvar ísraelskir unglingar grýttu palestínsa jafnaldra sína sem voru á leið í skólann. Kom þá að ísraelsk kona, en í Hebron býr fjölmargt landtökufólk, og veittist að Hauki og vinkonu hans. Kallaði hún þau meðal annars Hitler og nasista. Vegfarendum leist ekki á blikuna og kölluðu á lögregluna. Voru þau látin dúsa fyrir utan lögreglustöðina í vetrarkuldanum í þrjár klukkustundir. Haukur hafði tekið allt saman upp á myndbandstökuvél en þrátt fyrir það var þeim ekki sleppt fyrr en sex, sjö klukkustundum síðar.
DV fjallaði um málið á sínum tíma:
Haukur Hilmarsson beið í kuldanum í þrjá tíma á palestínskri lögreglustöð:
Íslendingur til yfirheyrslu á Vesturbakkanum
Haukur Hilmarsson, tvítugur Hafnfirðingur, lenti í lögreglumáli í Palestínu á sunnudagskvöld þegar dönsk vinkona hans skarst í leikinn þar sem ísraelskir unglingar grýttu palestínska jafnaldra sína. Ísraelsk kona, sem bar að þegar þetta gerðist, veittist því næst að Hauki og Önnu Maríu, vinkonu hans, með bölbænum og reiðilestri á hebresku. Vegfarendum hætti að lítast á blikuna og kvöddu lögreglu til. Haukur og Anna María samþykktu af fúsum og frjálsum vilja að fylgja lögreglumönnunum á stöðina til að gefa skýrslu en máttu bíða úti í vetrarkuldanum í þrjá tíma áður en þau komust að hjá lögreglumönnunum.
Kallaði þau nasista
Konan brást hin reiðasta við því að Norðurlandabúarnir skyldu skipta sér af. „Hún sakaði Önnu Maríu um að ráðast á sig,“ segir Haukur. „Við þurftum samt að hringja á einhvern sem gæti túlkað fyrir okkur og fengum þá nasasjón af ljótri ræðu.“ Meðal fúkyrðanna sem hún jós yfir Hauk og Önnu Maríu var „nasistar, Hitler og hypjið ykkur aftur til Auschwitz.“ Haukur hélt áfram að mynda atganginn á myndbandsupptökuvél sem hann á og var hann beðinn um að skila upptökunni inn til lögreglunnar lögreglunnar sem sönnunargagni.
Grjótkast algengt í Hebron
Sveinn Rúnar Hauksson, formaður félagsins Ísland-Palestína kannast vel við bæinn Hebron og segir grjótkast þar algengt. „Landtökubyggðirnar í Hebron eru sérstaklega illkynjaðar. Þetta er svo sem ekki stór hópur en þetta eru sérstaklega börn landtökumannanna sem kasta grjóti í palestínsku börnin og í útlendinga. Það hafa líka orðið slys út af þessu, það var til dæmis einn Skandinavi sem lenti í grjótkasti nýlega. Sá fékk hnullung í hausinn og var fluttur á sjúkrahús. Þess vegna hafa vegfarendurnir líklega kallað á lögregluna.“ Sveinn Rúnar var í Hebron síðast í janúar og segir ástandið þar sífellt fara versnandi. „Herinn horfir yfirleitt bara á. Hjálparstofnanir hafa meðal annars það verkefni að fylgja palestínskum börnum í skólann, þar sem þau þora sum ekki að labba ein. Mjög margir Palestínumenn hafa séð sér þann kost vænstan að flytja burt.“
Hér má svo sjá viðtal við Hauk hjá Stöð 2, eftir að hann kom heim úr svaðilförinni í Palestínu.