Júníus Meyvant er tónlistarmaður sem flestir þekkja. Færri vita að hann heitir Unnar Gísli Sigurmundsson og er borinn og barnfæddur í Vestmannaeyjum. Hann á að baki stuttan en magnaðan sjómannsferil á togaranum Breka VE. Seinna lærði hann á gítar og hefur nú náð frægð víða um heim. Frægðin stígur honum ekki til höfuðs. Hann býr ásamt eiginkonu og börnum í Vestmannaeyjum og unir glaður við sitt. Rokkstjarna á kvöldin en venjulegur fjölskyldumaður á daginn. Hann er alinn upp við trú. Afi hans var sjálfur Einar í Betel. Tónlist hans á sér rætur þar. Unnar Gísli segir sögu sína í viðtali við Sjóarann.
Reynir spyr Unnar Gísla hvers vegna það sé svona mikið trúarlíf í Vestmannaeyjum en hann vill meina að það sé vegna nálægðarinnar við náttúruöflin. „Ætli það hafi ekki verið sjórinn?“
Reynir: „Færeyingar eru svona líka. Þeir liggja mikið á bæn.“
Unnar Gísli: „Já, það er svona þegar maður er við náttúruöflin. Hvað ætlarðu að gera þegar þú dettur í sjóinn? Þú ert trúlaus stuttan tíma í sjónum. Það er erfitt að kalla á sjálfan sig.“
Aðspurður hvort hann rækti enn trú sína svarar Unnar Gísli: „Já, eða hvað á ég að segja? Ég er ekki kirkjurækinn sko. Það er einhver yfirvalds-anarkismi í mér. Það er erfitt að fá mig til að mæta eitthvert á réttum tíma. En alltaf trú, alltaf mjög trúaður.“
Hægt er að sjá allt viðtalið hér.