Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Unnusta Daníels í vitnaleiðslum: „Þessi maður á eftir að drepa fleiri ef hann fær ekki lengri dóm“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég vil ekki hafa það að þessi gaur sé hér inni. Hann er morðingi.“

Þetta sagði unnusta Daníels Eiríkssonar í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Daníel lést 2. apríl árið 2021 vegna áverka sem hann hlaut fyrir utan heimili sitt að Vindakór í Kópavogi. Dumitru Calin, 25 ára gamall rúmenskur karlmaður, er ákærður fyrir að hafa með gáleysi valdið dauða hans og ekki komið manni í nauð til hjálpar. Aðalmeðferð í málinu fór fram í dag.

Lilja Björg, unnusta Daníels, var í uppnámi þegar hún gekk til sætis fyrir vitnaleiðslur. Hún tjáði dómaranum að hún væri reið. Þau Daníel höfðu nýverið trúlofað sig þegar hann lést.

Lilja var spurð hvort hún vildi að sakborningurinn viki úr réttarsal á meðan hún gæfi vitnisburð sinn. Að endingu sagði hún að sér væri sama þótt hann sæti inni.

Fyrst var Lilja beðin um að lýsa ástandi Daníels nóttina áður en atburðurinn átti sér stað, sem og morguninn sem hann hitti Dumitru Calin á bílastæðinu fyrir utan heimili þeirra. Hún sagði Daníel hafa dottið í það kvöldið áður. Þau hafi verið búin að vera edrú saman í rúmlega sjö mánuði þegar hann hafði fallið.

- Auglýsing -

„Þetta gekk svo vel. Við vorum ótrúlega hamingjusöm. Ástfangin,“ sagði Lilja.

Hún sagði Daníel hafa sagt sér frá Dumitru og því að hann hafi verið að senda honum hótanir í skilaboðum. „Hann var edrú þá og vildi bara losa sig frá þessum heimi.“

 

- Auglýsing -

Var í mikilli neyslu og annarlegu ástandi

Lilja sagði að Daníel hefði farið út með vinum sínum þetta kvöld og fallið. Hún hafi áttað sig á því að hann væri búinn að neyta eiturlyfja og fengið hann til þess að koma heim til sín. „Ég vildi frekar að hann kæmi heim til mín, svo ég gæti passað hann.“

Hún sagði þau hafa ákveðið að hún myndi keyra hann í meðferð á Vogi um morguninn. Hann hafi strax farið að reyna að útvega sér fleiri efni eftir að hann kom heim. Hún sagði fíknina hafa verið mikla. Daníel hafi ætlað sér að detta ærlega í það áður en hann færi á Vog. Hún sagði hann hafa neytt eiturlyfja í miklu magni þar til hann lognaðist út af. Hún hafi sjálf vakið yfir honum alla nóttina og ekki ætlað sér að sofna. Eftir að Daníel sofnaði sagðist hún hinsvegar sjálf hafa farið inn í rúm og sofnað í stutta stund, enda orðin afar þreytt. Þetta var í morgunsárið, einungis nokkrum klukkutímum áður en hún ætlaði að fara með Daníel í meðferð.

Hún sagðist hafa vaknað við það að Daníel fór á fætur í annarlegu ástandi. „Hann veit varla hvað hann er að gera.“ Hann hafi verið í símanum en hún hafi sagt honum að fara að sofa; að þau væru að fara á Vog eftir þrjár klukkustundir. Þarna hafi klukkan verið í kringum sex um morguninn.

Miðað við ástandið á Daníel á þessum tímapunkti sagðist Lilja ekki hafa haldið að hann færi að gera eitthvað. Að hann gæti það yfir höfuð. Hún sagðist aftur hafa sofnað, í þetta sinn í klukkutíma eða einn og hálfan tíma. Þegar hún hafi vaknað hafi Daníel ekki verið í íbúðinni. „Ég fékk einhverja vonda tilfinningu. Ég ætlaði ekki að sofna.“

Lilja sagðist hafa farið út og séð Daníel liggja á götunni. Hún sagðist ítrekað hafa reynt að ná sambandi við hann, talað við hann og tekið í höndina á honum en hann hafi verið meðvitundarlaus. Hún hafi strax séð mikla höfuðáverka og blóð.

Sjúkrabíllinn kom stuttu síðar og flutti Daníel á slysadeild.

 

Skilur ekki hvernig hann gæti hafa verið ógn

Það tók bersýnilega á Lilju að rifja þennan dag upp og hún felldi tár um miðbik vitnisburðarins.

„Ég skil ekki hvernig hann á að geta hafa verið einhver svakaleg ógn. Hann var svo rosalega dópaður og stóð varla í lappirnar.“ Lilja sagðist ekki einu sinni hafa haldið að hann gæti verið í símanum, í því ástandi sem hann var.

„Hann var ruglaður og ráfandi um, alltaf að tala um að bæta við einum skammti í viðbót. Alltaf einum skammti í viðbót.“

Verjandi sakbornings hafði engar spurningar fyrir Lilju.

Eftir síðustu spurningu sækjanda sagði Lilja að sakborningurinn hefði verið að hóta Daníel í ár áður en hann lést. „Hann fór til hans með skammbyssu. Þess vegna fór Danni með haglabyssu, með engin skot í, til þess að hræða hann á móti.“

Lilja sagðist vera reið. Hún sagðist sjálf hafa farið að hitta sakborninginn. „Hann man eftir því,“ sagði hún. „Ég skil ekki að menn eins og hann komi inn í landið, lifi á glæpum, lemji fólk og drepi manninn minn.“

„Þessi maður á eftir að drepa fleiri ef hann fær ekki lengri dóm.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -