Bjarni Benediktsson tilkynnti ráðuneytisstjóra í matvælaráðuneytinu að Jón Gunnarsson ætti ekki að koma nálægt útgáfu eða vinnu við hvalveiðileyfa, sama dag og leyniupptökur fóru í dreifingu, þar sem sonur Jóns segir frá samkomulagi milli Jóns og Bjarna varðandi útgáfu hvalveiðileyfa. Bjarni hafnar því að hafa gert slíkt samkomulag.
Sjálfur sagði Jón, sem er nýskipaður aðstoðarmaður Bjarna í matvælaráðuneytinu, við fjölmiðla að eitt af því sem hann myndi skoða í ráðuneytinu væru hvalveiðar.
Bjarni Benediktsson sagði í viðtali við Morgunblaðið að það hafi „fyrir nokkru síðan“ sem hann hafi beðið ráðuneytisstjórann um taka fyrir það að Jón kæmi að vinnslu við hvalveiðileyfa. Í viðtali við Vísi sagðist hann ekki muna hvort það hafi verið í síðustu viku eða þeirri þarsíðustu.
Heimildin uppljóstrar því í dag að það hafi verið síðasta fimmtudag, þann 7. nóvember sem Bjarni beindi þeim fyrirmælum til Bryndísar Hlöðversdóttur ráðuneytisstjóra, að Jón skyldi ekki koma nálægt vinnu við hvalveiðileyfin. Hafði Heimildin þetta eftir svari ráðuneytisins við fyrirspurn sinni.
Einnig kemur fram í svarinu að umsókn Hvals hf. um hvalveiði hafi borist ráðuneytinu 23. október, degi áður en tilkynnt var um endurkomu Jóns á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar og aðstoðarmannastöðu hans í Matvælaráðuneytinu. Þetta þýðir að 15 dagar liðu frá því að umsókn Hvals barst ráðuneytinu og þar til Bjarni bað Bryndísi um að Jón kæmi ekki að vinnslu hvalveiðileyfa.
Á leyniupptöku óþekktra erlendra samtaka, sem Heimildin sagði frá heyrist sonur og viðskiptafélagi Jóns, Gunnar Bergmann fasteignasali, lýsa því nákvæmlega hvernig faðir hans þáði fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins, gegn því að fá stöðu til að vinna að hvalveiðiumsóknum hjá matvælaráðuneytinu.
Heyrist Gunnar segja Bjarna hafa sagt við föður sinn: „Þú verður að taka sæti á listanum“.
Gunnar hélt áfram: „En eina sætið sem var eftir var fimmta sætið. Svo hann sagði „ókei“ og tók sér nokkra daga. Á endanum sagði hann: „Allt í lagi, ég er tilbúinn að taka fimmta sætið. En þú verður þá að gera eitthvað fyrir mig. Ég þarf einhverja stöðu.“ Faðir minn sagði við hann [Bjarna Benediktsson]: „Ókei ef ég tek fimmta sætið þá verð ég þinn maður í þessu“.“