Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-1 C
Reykjavik

Úr unglingalandsliðinu í ofbeldisglæpi: „Hann var bara ofboðslega blíður og góður strákur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gabríel Douane Boama hefur á baki sér langan ofbeldisferil þó hann sé einungist tvítugur að aldri. En áður en hann fetaði grýttan veg ofbeldisglæpa var hann meðal efnilegustu körfuknattleiksmönnum Íslands og er óhætt að segja að flestir sem til hans þekkja eru í sjokki yfir þeirri stöðu sem hann hefur nú komið sér í. Mannlíf skoðaði lauslega sögu Gabríels.

Langur og ljótur afbrotaferill

DV fór nýlega yfir ofbeldisferil Gabríels. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Gabríel verið viðriðin fjölda ofbeldisbrota en hann var ekki nema sextán ára er hann var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í nóvember 2018, ásamt tveimur öðrum fyrir utan Hagkaup í Skeifunni. Réðust þremenningarnir að tveimur mönnum og lömdu þá hvað eftir annað í höfuð og búk auk þess að sparka í líkama þeirra eftir að þeir féllu í jörðina. Fórnarlömbin hlutu ýmsa áverka, það á meðal úlnliðsbrot.

Gabríel var svo ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni þegar hann hótaði ítrekað lögreglumönnum við skyldustörf líkamsmeiðingum og lífláti við Hótel Apótek í Austurstæti. Var það í september 2019. Hótanir Gabríels héldu svo áfram á leiðinni á lögreglustöðina við Hverfisgötu og einnig innandyra á stöðinni.

Blóðug árás Gabríels í Borgarholtsskóla í janúar í fyrra vakti óhug hjá þjóðinni enda ekki á hverjum degi sem slíkt gerist í framhaldsskóla hér á landi en Gabríel notaði bæði hafnaboltakylfu og hníf í árásinni. Fjórir nemendur voru fluttir á slysadeild eftir árásina en enginn var alvarlega slasaður.

Aðeins hálfu ári síðar var Gabríel kærður fyrir aðra líkamsárás í félagi við annan mann. Veittust þeir að öðrum manni og slógu hann í andlitið með kylfu og var hann einnig ákærður fyrir að hafa slegið annan mann í lærið með kylfunni í kjölfar hinnar árásarinnar.

- Auglýsing -
Ljósmynd sem Gabríel birti af sér á Instagram á meðan hans var leitað af lögreglunni.

Þá birti DV myndband af hrottalegri árás en þar réðist mikill fjöldi fólks, með Gabríel fremstan í flokki, að einum manni við Dalveg í Kópavogi í ágúst 2021. Var Gabríel ákærður fyrir að slá manninn í nokkur skipti í höfuð, taka hann hálstaki og fyrir að halda honum á meðan aðrir slógu í andlit hans, fella hann í jörðina og slá og sparka nokkrum sinnum í höfuð mannsins og búk. Fórnarlambið hlaut af þessu innkýlt brot í nefbeinum, opið sár á vör og í munnholi, sár og mar á eyra sem og mar í kringum auga.

Aukreitis var Gabríel ákærður fyrir að ráðast á 22 ára stúlku á Prikinu í október 2021 og slegið hana í andlitið. Þar að auki hefur hann verið ákærður fyrir vörslu á fíkniefnum og fyrir að stela úr Vínbúðinni.

Málið sem tekið var fyrir í Héraðsdóm Reykjavíkur er Gabríel slapp úr haldi lögreglu, snýr að ráni sem átti sér stað í júlí 2021 en þar þvingaði hann, ásamt fjórum öðrum, einstakling til að millafæra tæplega 900.000 krónur af bankareikningi sínum með hótunum um líkamsmeiðingar og lífláti.

- Auglýsing -

Ekki hefur Mannlíf heimildir fyrir því að dæmt hafi verið í fyrri málum Gabríels, enn sem komið er.

Einn efnilegast körfuboltamaður Íslands

Gabríel var af mörgum talinn einn allra efnilegasti körfuboltamaður landsins en uppeldisfélag hans var Valur. Mannlíf talaði við Ágúst Björgvinsson sem þjálfaði Gabríel í um nokkurra ára skeið og þekkir hann vel. Var Ágúst algjörlega miður sín yfir því hvernig er komið fyrir honum. „Þegar ég kynnist honum er hann 10 ára gamall sko, jafnvel yngri. Ég hef sem sagt þekkt hann síðan hann var barn og hann var bara ofboðslega blíður og góður strákur. Hann var alveg extra blíður sko. Hann var það blíður að hann var að passa strákana mína og hann hafði gaman af því að vera með börnum. Hann var alveg yndislegur drengur. Hann til dæmis faðmar mig enn þann dag í dag, í hvert skipti sem hann sér mig. Og hann gerir það sama við strákana mína þegar hann sér þá. En svo árin á eftir grunnskóla villist hann eitthvað af leið en þá er ég hættur að þjálfa hann. Þá slitna tengslin svolítið við hann, ég var ekki í daglegum samskiptum við hann. Og ég veit ekkert hvað gerist nákvæmlega eftir það.“

Aðspurður hvort honum þyki þetta ekki sorglegt játar Ágúst því: „Jú, þetta er mjög sorglegt. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hversu svakalegt þetta er. Hann var náttúrulega mjög efnilegur í körfunni en það sem skiptir meira máli, þá var hann virkilega góður drengur. Og er það í grunninn. En hefur villst af braut. Ég finn bara ofboðslega til með honum og hans foreldrum, ég þekki þau mjög vel. Ég vona bara að hann fái þá hjálp sem hann þarf á að halda og nái að komast á beinu brautina.“

Gabríel ásamt félögum úr unglingalandsliðinu.
Ljósmynd: valur.is

Gabríel hætti hjá Val árið 2018 og fer þá yfir í ÍR en þaðan flosnar hann upp úr körfunni. 2021 snéri Gabríel aftur í körfuboltann en þá hóf hann að æfa með Selfossi. Entist hann ekki nema í nokkrar vikur áður en hann hætti. Mannlíf ræddi við formann Körfuknattleiksfélags Selfoss, Gylfa Þorkelsson: „Hann kom í haust einhverntímann og við ákváðum að gefa honum tækifæri og hann æfði hjá okkur í nokkrar vikur. En síðan skrapp hann í bæinn og kom ekki aftur og við höfum bara ekkert heyrt frá honum aftur. Hann ætlaði sér að innrita sig í skólann á Selfossi eftir áramót og fara í Körfuboltaakademíuna hjá okkur. En það fór eins og það fór. Þessar fáu vikur sem hann var hjá okkur var hann bara til fyrirmyndar, ekkert vesen á honum eða neitt.“

Gabríel var einn efnilegasti körfuknattleiksmaður Íslands á sínum yngri árum en hann var í unglingalandsliðinu á tímabili. Þá var hann valinn besti leikmaður Norðurlanda í sínum aldursflokki í Scania Cup árið 2017 en það er óopinbert Norðurlandaamót félagsliða í körfuknattleik fyrir ungt körfuknattleiksfólk. Meðal fyrri leikmanna sem hlotið hafa þann titil eru þau Jón Arnar Stefánsson og Helena Sverrisdóttir.

Ágúst Björgvinsson þjálfari Gabríels á árum áður, sagði í lok símtalsins við Mannlíf orð sem passa ágætlega sem lokaorð þessarar yfirferðar: „Hann er ennþá bara tuttugu ára, hann getur ennþá snúið þessu við.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -