Útför Bryndísar Klöru Birgisdóttur verður gerð út frá Hallgrímskirkju klukkan 15 í dag. Verður útförinni streymt á YouTube.
Bryndís Klara lést eftir hnífstunguárás við Skúlagötu á Menningarnótt í ágúst. Hafa foreldrar hennar boðað þann boðskap að fráfall hennar verði til þess að vopnaburður hverfi af sjónarsviðinu og að kærlekurinn verði eina vopnið.
Við útförina kemur þekkt tónlistarfólk fram en henni verður streymt meðal annars á YouTube og á Vísi klukkan 15.
Sigríður Thorlacius syngur við útförina, Matthías Stefánsson spilar á fiðlu, Gunnar Gunnarsson spilar á orgel og karlakórinn Fóstbræður syngur.
Árásin á Bryndísi Klöru vakti gríðarleg viðbrögð í samfélaginu en ríkisstjórnin hefur kynnt 25 aðgerðir til að bregðast við ofbeldi meðal barna og ungmenna. Við setningu Alþingis fyrr í vikunni talaði forseti Íslands, Halla Tómasdóttir um mikilvægi þess að snúa þróuninni við.
Stofnaður hefur verið minningarsjóður til að heiðra minningu Bryndísar Klöru en hann er tileinkaður þeim tilgangi að gera kærleikann að eina vopninu í samfélaginu. Mun sjóðurinn styrkja við verkefni og aðgerðir sem leiða til aukinnar velferðar og öryggis ungs fólks á Íslandi.
Minningarsjóður Bryndísar Klöru
Kennitala: 430924-0600
Bankareikningur: 515-14-171717