Aðstoðarframkvæmdastjóri Rússlandsdeildar Transparency International segir Samherjamálið sýna fram á hversu berskjaldað Ísland er fyrir spillingarmálum. Hann segir landið vera lítið og að smæðin bjóði upp á spillingu.
„Ísland er mjög lítið land þar sem valdafólk er gjarnan aðskilið með aðeins fáeinum handaböndum í gegnum vinahópa, fjölskyldutengsl og önnur óformleg tengsl. Þessi smæð býður upp á spillingu þegar kemur að útdeilingu á gæðum og fjármunum.“ Þetta segir Ilia Shumanov, aðstoðarframkvæmdastjóri Rússlandsdeildar Transparency International, í nýjasta tölublaði Stundarinnar, en hann hélt nýverið hérlendis námskeið og fundi um peningaþvott á alþjóðlegum skala.
Segir Shumanov að hvað sem jákvæðri ásýnd Íslands erlendis líði þá hafi Samherjamálið sýnt hversu berskjaldað landið er fyrir spillingarmálum. Spurður hvort hann telji líkur á að fleiri íslensk fyrirtæki, sem starfi í þróunarríkjum, beiti svipuðum aðferðum til að auka hagnað svarar hann því til að hann vilji ekki alhæfa um það. „En allar vísbendingar benda til þess,“ segir hann. „Það eru ekki margir stórlaxar í íslenska hagkerfinu miðað við það sem gengur og gerist erlendis, en það kom upp stórt spillingarmál hjá einu stærsta fyrirtæki Íslands. Þetta gefur yfirvöldum og saksóknurum landsins fulla ástæðu til þess að grandskoða gögn frá öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum, því þessir brestir sluppu í mörg ár í gegnum núverandi kerfi.“
Í umfjöllun Stundarinnar er rifjað upp að í Panamaskjölunum hafi komið fram að feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson voru árið 2001 eigendur bruggverksmiðjunnar Bravo í St. Pétursborg í Rússlandi ásamt Magnúsi Þorsteinssyni. Shumalov er spurður út í málið en segist ekki þekkja til þess, en tekur fram að erlendir aðilar sem vilji stunda viðskipti í Rússlandi komist ekki hjá því að þurfa að múta ákveðnum aðilum, eða eiga sterk tengsl við elítu landsins, eins og segir í greinninni. Fyrirtækjaeigendur í Rússlandi standi frammi fyrir mörgum ófyrirséðum hættum sem geti kostað þá fyrirtæki þeirra. „Í dag áttu fyrirtækið, en á morgun getur það verið horfið,“ segir hann. „Til að sporna gegn því þarftu að borga fólki mútur sem geta verið í beinhörðum seðlum, eða þú getur verið skikkaður til að kaupa hráefni eða rafmagn á okurverði frá vel völdum birgjum.“
Shumanov segir enfremur að íslensk stjórnvöld hafi ekki lagt nógu mikla áherslu á gagnsæi undanfarin ár. Tekur hann sem dæmi að rannsóknarteymi þurfi að borga háar upphæðir fyrir aðgengi að upplýsingum um rekstur íslenskra fyrirtækja. Þessar upplýsingar séu annars faldar fyrir almenningi. Í Evrópu sé þróunin að verða önnur, þar séu ársreikningar og önnur fjárhagsleg gögn opin öllum að kostnaðarlausu. „Þetta er sérstaklega mikið vandamál þegar miklir peningar eru í fasteignamarkaðinum, eins og á Íslandi og víðar, en þar skiptir máli að geta fylgt peningunum til að sporna gegn spillingu og peningaþvætti.“