Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-12.2 C
Reykjavik

V-dagurinn 20 ára: „Ofbeldi gegn konum er órjúfanlega tengt drottnunargirni manna“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Hvorki stjórnlaus kynhvöt, sjúklegir eiginleikar né utanaðkomandi aðstæður fá karla til að nauðga. Nauðgun er ofbeldi sem miðar að því að lítillækka, niðurlægja og kúga þann sem er nauðgað. Nauðgun undirokar konur á hrottafullan hátt og vitundin um hættuna á nauðgun er ógn sem takmarkar og heftir frelsi allra kvenna.“

Þessi orð eru með þeim fyrstu sem blasa við í grein í Mannlífi frá febrúarmánuði ársins 2002. Greinin var skrifuð í tilefni V-dagsins, sem var haldinn í fyrsta sinn á Valentínusardaginn, þann 14. febrúar árið 2002, fyrir tuttugu árum síðan. Gerður Kristný skrifaði greinina.

Vegna samfélagsumræðunnar undanfarin misseri í tengslum við kynbundið ofbeldi er áhugavert að spegla umræðuna um málaflokkinn fyrir tuttugu árum síðan, við það hvar við stöndum nú.

Skjáskot úr grein Mannlífs eftir Gerði Kristnýju. Myndir: Gísli Egill Hrafnsson.

Ekki meira ofbeldi

„Á Valentínusardaginn 14. febrúar nk. verður í fyrsta skipti efnt til svokallaðs V-dags hér á landi en hann hefur verið haldinn víða um heim undanfarin fjögur ár í þeim tilgangi að vekja fólk til umhugsunar um kynferðisofbeldi gegn konum.“

Það var upprunalega hópur bandarískra kvenna sem kom V-deginum á fót í tengslum við leikritið „Vagina Monologues“ eða Píkusögur, eftir Eve Ensler. Leikritið var sýnt hér á landi í Borgarleikhúsinu á sínum tíma og naut mikilla vinsælda. Fyrir tuttugu árum tók hópur fólks sig svo saman hér á landi og komu V-deginum á dagskrá. Þetta voru þau Þórey Vilhjálmsdóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Birta Ósk Gunnarsdóttir, Logi Unnarson Jónsson og Edda Jónsdóttir.

„Ekki er aðeins um að ræða einn dag því 14. febrúar verður stofndagur samtaka kenndum við V-daginn sem, líkt og bandaríski forverinn, hyggjast vinna gegn ofbeldi á konum. Er samtökunum ætlað að starfa sem einskonar þrýstihópur. Eitt markmið er tekið fyrir í einu og í ár urðu nauðganir fyrir valinu. Líkt og þorra þjóðarinnar finnst sexmenningunum brýnt að meðferð mála verði manneskjulegri svo ekki hvarfli annað að fórnarlömbum nauðgana en að kæra verknaðinn. Engin fylgni er á milli fjölda kæra annars vegar og hins vegar þeirra sem leita aðstoðar Stígamóta eða Neyðarmóttöku á Landspítalanum í Fossvogi vegna nauðgunar. Auk þess krefjast stofnendur V-dags samtakanna þyngri dóma yfir gerendum en þeir hafa þótt of vægir t.d. miðað við dómana sem fíkniefnasmyglarar hafa fengið undanfarin misseri. Allir þeir sem koma að skipulagningu V-dagsins gefa vinnu sína og verður fjármagn fengið frá fyrirtækjum, opinberum aðilum og einkaaðilum.“

- Auglýsing -
Aftast f.v: Eva María Jónsdóttir, Össur Skarphéðinsson og dóttir hans Ingveldur, sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, Andri Snær Magnason, Örn Arnarson, Elva Dögg Melsteð, Nína Björk Gunnarsdóttir, Hallgrímur Helgason. Miðröð: Sóley Elíasdóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir. Fremst f.v: Erpur Eyvindarson, Guðjón Már Guðjónsson, Ragnar Kjartansson.

Enn í sömu umræðu

Það er athyglisvert að skoða ummæli stofnendanna um að meðferð kynferðisbrotamála þyrfti að verða manneskjulegri, „svo ekki hvarfli annað að fórnarlömbum nauðgana en að kæra verknaðinn.“ Nú, tuttugu árum síðar, er enn verið að ræða sömu hluti. Í síðustu viku fjallaði fréttaskýringaþátturinn Kveikur einmitt um þau mál. Þar var talað um alltof langan málsmeðferðartíma, sem og ómanneskjulegt ferli mála gagnvart brotaþolum, þar sem brotaþolar eru ekki aðilar að eigin málum, heldur vitni, og fá þannig ekki aðgengi að réttarhöldunum né öllum málsgögnum.

Sömuleiðis hefur lengi vel verið, og er enn, gagnrýnt hve hátt hlutfall kæra eru felldar niður að rannsókn lokinni og komast því aldrei alla leið fyrir dómstóla.

„V-dagurinn verður haldinn þar til ekki verður lengur til kynferðisofbeldi gegn konum. Við sjáum fyrir okkur samfélag þar sem konur lifa frjálsar og öruggar,“ sögðu stofnendur samtakanna.

- Auglýsing -
Aftast f.v: Guðjón Pedersen, Björn Ingi Hilmarsson, sr. Pétur Matthíasson, Halldóra Geirharðsdóttir, Didda, Einar Ágúst. Miðröð f.v: Gísli Marteinn Baldursson, Þórunn Lárusdóttir, Andrea Róbertsdóttir, Logi Bergmann Eiðsson, Margrét Rós Gunnarsdóttir, Elísabet Davíðsdóttir, Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, Hrafn Didduson. Fremst f.v: Edda Pétursdóttir, Védís Hervör Árnadóttir.

 

Samantekt árið 2002

Í samantekt Eddu Jónsdóttur, eins stofnmeðlima V-dagsins, segir eftirfarandi, ásamt því sem stendur efst í greininni:

„Árið 2000 leituðu 74 konur sér hjálpar hjá Stígamótum vegna 84 nauðgana. Af þeim hafði 60,7% verið nauðgað af einhverjum sem þær þekktu (vini/kunningja), 11,9% hafði verið nauðgað af maka sínum og 20,2% af ókunnugum.

Á árunum 1997-2000 var tilkynnt um nauðgun til lögreglu alls 173 sinnum. Þar af voru aðeins 67 mál send til ríkissaksóknara og 18 kærur gefnar út en ein þeirra var afturkölluð. Ellefu nauðgarar voru sakfelldir, sex sýknaðir og sex málum var svo áfrýjað. Í Hæstarétti var einn nauðgari sýknaður á tímabilinu og þrír sakfelldir.

Nýlega var bætt inn í almenn hegningarlög ákvæði með það að markmiði að veita vitnum í sakamálum sérstaka refsivernd gegn hótunum og þvingunum. Þar að auki voru sett lög um nálgunarbann í nóvember 2000.

Samkvæmt bráðabirgðatölum, fengnum úr rannsókn á ákvörðun refsingar við afbrotum, komu alls 57 ákærumál vegna nauðgunar til Hæstaréttar á tímabilinu 1950-1998. Af þessum 57 ákærðu voru 49 sakfelldir (86%) og 8 sýknaðir (14%).“

Aftast f.v: Guðrún Eva Mínervudóttir, Óskar Jónsson, Þorfinnur Ómarsson. Miðröð f.v: Jakob Frímann Magnússon, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Sólveig Pétursdóttir. Fremst f.v: Margrét Örnólfsdóttir, Dýrleif Ýr Örlygsdóttir, Kormákur Geirharðsson.

Gísli Marteinn: „Mér finnst allt ofbeldi viðbjóðslegt“

Nokkrir þekktir einstaklingar sátu fyrir svörum í Mannlífi til stuðnings V-deginum, þau Elva Dögg Melsteð, sem þá var titluð sem háskólanemi, Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi borgarstjóri og Guðjón Pedersen þáverandi Borgarleikhússtjóri.

Þau fengu öll hinar ýmsu spurningar, en sú spurning sem tengdist viðfangsefninu mest var:

„Hvernig heldurðu að heimurinn myndi breytast ef ofbeldi á konum fyrirfyndist ekki?“

Elva Dögg Melsteð:

„Til batnaðar. Allt ofbeldi er slæmt og því er það alltaf til batnaðar fyrir heiminn ef því linnir. Þess væri óskandi að virðing fyrir náunganum væri meiri þannig að fólk hætti að níðast hvert á öðru, bæði andlega og líkamlega.“

Elva Dögg Melsteð

Gísli Marteinn Baldursson:

„Mér finnst allt ofbeldi viðbjóðslegt og ég held að sjaldnast sé gert of mikið úr áhrifunum sem það hefur á þann sem fyrir verður. Hvort sem um er að ræða konur eða karla þá held ég að sá sem beittur er ofbeldi lengi og reglulega missi sjálfstraustið og sjálfsvirðinguna. Og þetta væri betri heimur ef fleiri væru með þessa þætti í lagi.“

Gísli Marteinn Baldursson

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

„Það yrði paradís á jörðu! Ofbeldi gegn konum er órjúfanlega tengt drottnunargirni manna sem getur eftir atvikum beinst gegn náttúrunni, samfélaginu eða samferðafólki. Í sinni grófustu mynd birtist hún sem kynferðislegt ofbeldi gegn konum og börnum. Ef ofbeldi gegn konum fyrirfyndist ekki væri ofbeldi í hvaða mynd sem er á hröðu undanhaldi.“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Guðjón Pedersen:

„Hann myndi breytast til hins betra.“

Guðjón Pedersen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -