Valdimar Sigþórsson, betur þekktur sem Valdi Víðátta, var um borð í Dísarfellinu þegar það fórst milli Íslands of Færeyja árið 1997. Hann er nýjasti gestur Sjóarans.
Slysið er tekið fyrir í nýútkominni bók Svövu Jónsdóttur, Heimtir úr Helju.
„Þetta er voðalegra skrítið. Hausinn á manni fer í algjört flopp,“ segir Valdi við Reyni, þegar hann lýsir því þegar ljóst er að skipið er að sökkva. „Fyrst er maður svona „Bíddu, hvað er að ske? Hvað á að gera? Hvað eigum við að gera?“.“ Valdi segir Reyni svo að á þessu augnabliki hafi gámarnir á skipinu losnað og voru á leið út í sjó og skipið að halla sífellt meira. „Og þá verð ég að viðurkenna það að ég verð hræddur hreinlega af því að þetta voru athafnir sem ég hafði aldrei spáð í, þó að bróðir minn hafi sagt mér ýmislegt um sitt slys. Ég bara leggst í remote, það bara slökknar á hausnum á mér. Maður sér 14, 16 metra ölduhæðir og þegar þeir voru til dæmis að skjóta neyðarblysunum þá höfðu þeir það ekki af, þeir skutu því en það fór bara í brotið. Og lýsti alveg upp sjóinn. Maður var kominn á þannig stað að maður sá enga leið út úr. Ég er vanur að finna alltaf leiðir út úr öllu en þarna gat ég ekkert gert. Ekki neitt. Og ég bara leggst bakvið spil en eftir smá tíma fæ ég bara einn „God morgen!“ frá einum skipsfélaga mínum og það var bara eins og ég fengi start, eins og þegar maður gefur bíl start. Ég fer af stað. Og engin hræðsla. Ég fór að reyna að losa björgunarbátinn og ég fer að ná í kaðla til að gera eitthvað með.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér þar sem Valdimar lýsir sjóslysinu sem varð tveimur mönnum að bana.