Valgerður Þorsteinsdóttir, dóttir Þóru Hreinsdóttur, sem afhenti Stundinni dagbók móður sinnar hefur verið gagnrýnd harkalega af fjölskyldu sinni. Systir hennar Soffía Þorsteinsdóttir, Þorsteinn Eggertsson, barnsfaðir Þóru heitinnar, og Fjóla Ólafsdóttir, núverandi kona hans sendu frá sér yfirlýsingu í gær sem birtist á mbl.is.
Mannlíf leitaði til Valgerðar í kjölfar yfirlýsingar fjölskyldu hennar. Valgerður segir að Jón Baldvin Hannibalsson hafi kíkt í kaffi til pabba hennar, Þorsteins Eggertssonar, og sambýliskonu hans, Fjólu Ólafsdóttur á laugardaginn var. „Pabbi sagði mér það í gær, þegar ég spurði hvort Bryndís Schram og/eða Jón Baldvin hefðu mikið hringt,“ og staðfestir Valgerður að Þorsteinn og Jón Baldvin séu mátar. „Veit ekki hvenær þeir urðu svona bestu vinir, en þeir voru engir sérstakir vinir þegar ég var krakki.“
„Ég ætla ekki að taka á mig þeirra skömm“
Valgerður lýsir því hvernig hún hafi verið með öllu grunlaus um afstöðu fjölskyldu sinnar: „Ég sá yfirlýsingu þeirra ekki á Facebook, þar sem ég hef verið með Soffíu blokkaða frá 2010.“ Valgerður segir jafnframt frá því að í gær hafi fjölskyldan verið samankomin á ættarmóti og þar hafi hún setið með föður sínum og rætt við hann. „Ekki eitt orð um þessa grein í Morgunblaðinu.“
Valgerður ber systur sinni ekki fagra söguna og lýsir henni sem sjálfhverfum einstaklingi og að faðir hennar og kona hans séu meðvirk með henni.
„Ég ætla ekki að taka á mig þeirra skömm,“ segir Valgerður þegar hún er innt eftir leyfi á birtingu. „Ef þessari kynslóð er svona annt um þöggun, held ég að það færi þeim best að þegja bara áfram.“
Í fésbókarfærslu frá Valgerði segir hún: „ Það er engin virðing fólgin í því að taka afstöðu með lygurum og barnaperrum.
Í yfirlýsingunni frá systur Valgerðar, pabba hennar og sambýliskonu hans segir meðal annars: „ Við undirrituð hörmum það, að friðhelgi einkalífs Þóru Hreinsdóttur hefur verið rofin og vanvirt með þessum hætti. Við beinum því til fjölmiðla og svokallaðra álitsgjafa að virða friðhelgi einkalífs hinnar látnu konu. Einnig að láta ógert að leiða hana fram sem vitni í sakamáli, sem henni er óviðkomandi.“
Hér að neðan má sjá færslu Valgerðar: