„Það er í mjög fáum tilvikum sem gerenduraxla ábyrgð. Í þeim tilvikum sem ég man eftir í þessari MeToo-bylgju þá hefur það samt yfirleitt verið klaufalega gert. Það hefur til dæmis ekki verið gert í samráði við þolendurna og það hefur ekki verið öxluð full áabyrgð,“ segir Gabríela Bryndís Ernudóttir, sálfræðingur og formaður baráttuhópsins Líf án ofbeldis.
Hún segir þó úrræði fyrir sjálfsvinnu vera til staðar fyrir ofbeldismenn. Gabríela hefur áralanga reynslu af vinnu með þolendum ofbeldis. Þá hefur hún látið til sín taka víða í kerfinu þegar málefni snerta þolendur. Aðspurð hvers vegna hún telji meinta ofbeldismenn ekki segja orð um meint brot, segir hún það eðlilegt í stöðunni. „Persónulega, þá finnst mér eðlilegt að þeir þagni þegar verið er að ásaka þá um svona, og þeir fari bara í sjálfsvinnu í langan tíma. Ekki bara í tvo mánuði og svo í drottningarviðtal,“ segir hún og bætir við að slík sjálfs-vinna taki mun lengri tíma en örfáa mánuði.
Aðspurð um úrræðin fyrir þá sem beitt hafa ofbeldi, segir hún þau vera nokkur.
„Það er úrræði sem heitir „heimilisfriður“, en svo eru líka einstaka sálfræðingar sem taka að sér vinnu með gerendum kynferðisofbeldis – gegn börnum til dæmis.“ Þess má geta að Taktu skrefið er einnig eitt af þeim úrræðum sem standa til boða en þar starfa sérhæfðir sálfræðingar.
En hvers vegna leita þeir sér ekki aðstoðar og gangast við brotum sínum?
„Vandamálið er að gerendur ofbeldis eru með mjög víðtækan vanda, þeirra vandi er að vilja ekki horfast í augu við eigin tilfinningar, eigin bresti og þess vegna beita þeir ofbeldi. Þar af leiðandi eru þeir mjög ólíklegir til þess að stunda sjálfsvinnu. Ef þeir fara í sjálfsvinnu, þá eru þeir ekkert endilega að gera það á réttum forsendum, heldur kannski bara til þess að líta vel út út á við og þetta er alveg rosalega stórt vandamál.“
Gabríela nefnir einnig afsakanir sem ofbeldismenn bera oft og tíðum fyrir sig. Afsakanir vegna neyslu eða áfengisvanda, sem þeir segja ástæðu þess að þeir beittu ofbeldi.