Þegar lögreglan mætti á vettvang í Stangarholti kom á daginn að framinn hafði verið glæpur. Hópur ungmenna var samankominn í íbúðinni. Ungur maður hafði verið stunginn í lærið með eggvopni, að talið var. Annað átti eftir að koma á daginn en hnífsstungumálið átti þó eftir að draga á eftir sér dilk.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning vegna hávaða og ónæðis frá kjallaraíbúð í Stangarholti. Atvikið átti sér stað um sexleytið sunnudagsmorguninn, 5. mars 1995.
Fram kemur í frétt Morgunblaðsins, 7. mars 1995: „Þar var fyrir fjöldi ungs fólks þegar lögreglan kom á staðinn, og hafði einn piltur verið stunginn með hníf í læri. Hann var fluttur á slysadeild en áverkinn er talinn minniháttar, og leikur grunur á að hann hafi veitt sér hann sjálfur.“ Reyndist pilturinn hafa verið í afbrýðissemiskasti og veitt sjálfum sér sárið.
Hávaðinn frá samkvæminu og öskur gestanna eftir að pilturinn stakk sig urðu þess valdandi að lögreglan komst á sporið á stórri og viðamikilli glæpastarfsemi sem herjað hafði á borgarbúa vikurnar áður. Óhætt er að segja að viðkomandi hafi skotið sjálfan sig í fótinn með sjálfsskaðanum.
Afhjúpun skipulagðrar glæpastarfsemi
Lögreglan fékk húsleitarheimild og við leitina kom í ljós gríðarleg magn þýfis að verðmæti fleiri milljóna króna. Við yfirheyrslu kom í ljós að þýfið sem fannst í íbúðinni tengdist fjölda innbrota sem tilkynnt höfðu verið í höfuðborginni á undanförnum dögum og vikum.
Þá segir í fyrrgreindri frétt Morgunblaðsins: „Lögreglan fékk húsleitarheimild og fann í íbúðinni fjölda símtækja, tölvur, reiðtygi, sjónvarpstæki, örbylgjuofn og fleiri muni sem lögreglan telur að sé þýfi úr innbrotum að undanförnu, og var aðkoman svipuð og „í skranbúð“ að sögn lögreglu.“
Átta handteknir
Fimm drengir og þrjár stúlkur á sextánda aldursári voru flutt til yfirheyrslu hjá rannsóknalögreglu ríksins.
Í frétt DV 6. mars sama ár kemur fram að einhverjir samkvæmisgestanna voru meðlimir í glæpagengi: „Reyndust sumir samkvæmisgesta vera meðlimir í alræmdu þjófagengi, að sögn lögreglu. Flutti lögreglan átta manns, fimm drengi og þrjár stúlkur, í fangageymslur. Þau eru öll um tvítugt. Stúlkunum og tveimur drengjum var sleppt fljótlega en þrír drengir voru færðir til yfirheyrslu hjá RLR.“
Leigendur kjallaraíbúðarinnar í gæsluvarðhald
Óskað var eftir því að íbúum kjallaraíbúðarinnar að Stangarholti yrði gert að sæta tíu daga í gæsluvarðhaldi. Ekki var talið að þeir tilheyrðu glæpagenginu en sem íbúar taldist það víst að þeir bæru ábyrgð á þýfinu. Annar íbúanna var sá sem stakk sjálfan sig í lærið. Í frétt Morgunblaðsins sagði: „Eftir frumyfirheyrslur sleppti RLR einum drengjanna en fór fram á 10 daga gæsluvarðhald hjá Héraðsdómi Reykjavíkur yfir hinum tveimur síðdegis í gær. Þeir tilheyra ekki þjófagenginu og eiga óverulega afbrotasögu að baki. Þeir eru leigjendur íbúðarinnar við Stangarholt þar sem þýfið fannst. Annar drengjanna er sá sem stakk sig í lærið. Héraðsdómari úrskurðaði drengina tvo i gæsluvarðhald til 13. mars.“
Þá kemur jafnframt fram í frétt Morgunblaðsins að mennirnir tveir höfðu ekki alls kostar sáttir við niðurstöðu Héraðsdóms og mátti rannsóknarlögregla ríkisins þess vegna óska eftir aðstoð lögreglunnar í Reykjavík: „Þegar því lauk þurfti RLR að kalla lögregluna í Reykjavík sér til aðstoðar við að flytja drengina frá Héraðsdómi í Síðumúlafangelsið þar sem þeir gerðu sig líklega til mótspymu. Ekki kom til stórátaka og gekk flutningurinn i Síðumúla án teljandi vandræða.“