Vantrauststillaga Miðflokksins á hendur matvælaráðherra var rétt í þessu felld á Alþingi.
Stór orð féllu í umræðunni áður en gengið var til atkvæðagreiðslunnar en stjórnarmeðlimir kölluðu tillöguna meðal annars „lýðskrum“ og „leikrit fáránleikans“ á meðan stjórnarandstæðuþingmenn töluðu um „lögbrot“
Alls kusu 23 með tillögunni en 35 kusu gegn henni og einn greiddi ekki atkvæði. Var hún því felld.
Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins gerði sérstaklega grein fyrir atkvæði sínu en hann hefur verið afar gagnrýninn á matvælaráðherra Vinstri grænna. Þar gagnrýndi hann áfram Vinstri græna og tilkynnti svo að hann myndi ekki greiða atkvæði í málinu.
Óli Björn Kárason, sem einnig hefur gagnrýnt matvælaráðherra vegna málsins, steig í pontu og gerði grein fyrir atkvæði sínu. Þar sagði hann meðal annars: „Ég mun aldrei vera í liði með þeim sem vilja fella ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.“