Föstudagur 27. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Var Borges besti Íslandsvinurinn?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í dag erum við Íslendingar orðnir varnir því að land okkar sé vinsæll áfangastaður ferðalanga og að þjóðin búi við býsna góðan orðstýr. Íslendingar eru virtir á alþjóðavettvanig í listum og öðrum greinum. En á síðustu öld var veröldin frekar tómlát gagnvart þessari eyju út í ballarhafi en þó leyndust þar traustir vinir. Reyndar áttum við, á þessum vinafáu tímum, aðdáanda sem leit svo upp til þessarar þjóðar að hann kom hingað til lands í, það sem hann kallaði, pílagrímsferðir. Þetta var enginn annar en argentínski skáldjöfurinn Jorge Luis Borges sem á engan sinn líkan í bókmenntasögunni og er löngu kominn á bekk með mikilvægustu rithöfundum allra tíma. Hann lagði stund á íslenskunám og það var einmitt í þeim kennslustundum sem hann og eiginkona hans, hinn japanskættaði rithöfundur María Kodama, felldu hugi saman.

Jorge Luis Borges

Sagði hann frá því í viðtölum að hann hefði grátið af gleði þegar hann kom fyrst til landsins árið 1971. Það var ekki landslagið sem hreif hann en Borges var nánast alveg blindur á þessum árum. Hann komst hinsvegar við að heyra okkar ylhýru tungu, en íslenskuna kallaði hann latínu norðursins. Seinna sagði hann að það eitt að vera á þessu landi væri nóg til að fylla hann hamingju. „Þetta land er eins og fjarsjóður sem heimurinn á,“ sagði hann eitt sinn. Lýsti hann því líka yfir að hann dreymdi um að búa hér á landi.

Íslandsást þessi hófst þegar hann var lítill drengur í lesherberginu í föðurhúsum en þá réttir faðir hans honum Völsungasögu. Hann heillaðist svo af sögunni að allt frá þeirri stundu varð hann einlægur aðdáandi íslenskra bókmennta og sökkti hann sér í þau fræði. Orti hann síðar óð til Íslands sem er skýrt merki um þann ástarhug sem hann bar til lands og þjóðar. Einnig orti hann um Snorra Sturluson, sem hann sagði að væri engin eftirbátur Shakespears, skrifaði ritgerðir um fornbókmenntir okkar og hældi landi og þjóð á hvert reipi í ótal viðtölum. Þeir Íslendingar sem vilja síðan láta reyna á ágæti Borgesar geta kynnt sér bókina Suðrið en í henni eru margar af bestu sögum argentínska skáldsins í snilldarlegri þýðingu Guðbergs Bergssonar.

Hann eignaðist marga vini hér á landi og reyndi að hafa upp á þeim þegar hann kom til landsins. Eitt sinn bar hinsvegar svo við að hann týndi tösku sinni þegar hann millilenti í Nýju Jórvík og þar með missti hann minnisbók sína með heimilisföngum og símanúmerum íslensku vina sinna. Dó hann þó ekki ráðalaus og stigu þau hjón upp í leigubíl, þegar hingað var komið, og létu hann keyra sig um Borgarfjörð. Síðan var tekið hús á allsherjargoðanum Sveinbirni Beinteinssyni á Draghálsi. Þaðan var Borges leystur út með gjöfum og fékk meðal annars snældu með kvæðum í flutningi húsbóndans.  

Jorge Luis Borges lést árið 1986, áttatíu og sjö ára að aldri. Þó leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjevs hafi verið haldin hér það ár var Ísland andstætt öllu því sem kalla mætti tísku. Það ár komu 113 þúsund erlendir ferðamenn til ársins en í venjulegu árferði nú á dögum eru þeir vel yfir tvær milljónir. Upplýst heimsfólk kann að hafa þekkt Vigdísi Finnbogadóttur og Halldór Laxness og fróðustu poppunnendur mundu eflaust eftir Mezzoforte. Íslenska landsliðið í handbolta var að vinna sér sess meðal fremstu þjóða en annars voru íþróttaafrek á alþjóðavettvangi ekki tíð og íslensk náttúra var í hugum flestra samnefnari fyrir vont veður. En þrátt fyrir það áttum við þá Íslandsvin sem þráði þetta land okkar öðrum fremur. Það er að segja, við höfum átt fáa Íslandsvini jafn einlæga og trausta og Jorge Luis Borges.

Hægt er að hlusta á nýjasta hlaðvarpsþátt Jóns Sigurðar hér fyrir neðan:

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -