Trúðurinn Jelly Boy the Clown býr á Íslandi ásamt eiginkonu sinni, Aðalheiði Broomfield Flosadóttur og syni þeirra en árið 2011 var hann hætt kominn þegar eldur kviknaði í íbúð sem hann dvaldi í.
Þann 10. nóvember heldur Coney Iceland sirkushópurinn sýningu í Iðnó sem kallast Crazy Kinky Coney Iceland en um er að ræða þriggja þátta partý sem er bannað börnum. Í fyrsta partinum verður matur á borðstólnum og sirkusflytjendur ganga um svæðið og eiga í samskiptum við áhorfendur. Í parti tvö verður sirkus hliðarsýning með kink-þema og svo verður plötusnúða-danspartý þar sem sirkuslistamenn tvinnast inn í veisluna. Einn af þeim sem stendur að sýningunni er Eric Broomfield sem notar trúðanafnið Jelly Boy the Clown. Mannlíf settist niður með honum og ræddi við hann um ástina, áföllin og hvernig það er að vera trúður á Íslandi.
Upphafið
Eric Broomfield er sirkustrúður frá Bandaríkjunum sem flutti til Íslands árið 2020 en hann er giftur íslenskri konu en hún er einnig sirkus-starfsmaður.
„Ég fæddist í New York-fylki í smábæ sem heitir Suffern í Rockland-sýslu, við Hudson-ánna, rétt hjá lestarteinum, árið 1977,“ sagði Jelly um upphafið og hélt áfram. „Ég flutti til Philadelphia í Pennsylvaniu árið 1999 og ferðaðist um allan heim í sirkussýningum sem Jelly Boy the Clown en notaði Philadelphiu sem mitt heimasvæði.“
En síðan kom hann til Íslands. „Ég kom svo til Íslands því að ég er ævintýragjarn og auðvitað kom ég fram í sýningu Burlesque-hóps Margrétar Erlu Maack. Svo bjó ég til Squidling Brothers Circus sýningu með Alex Diego, sem við köllum Coney Iceland. Coney nafnið kemur frá skemmtigarði í Brooklyn fyrir nokkrum árum þar sem ég vann sem sverðagleypir en garðurinn heitir Coney Island. Staðurinn er frægur fyrir frík-sjóv og skemmtitæki, staðsettur á bryggju við sjávarsíðuna. Ég vann þar heilt sumar og fékk svo þann sem málaði auglýsingaskiltin fyrir sýninguna til að mála auglýsingaborða fyrir Coney Iceland-sirkusinn.“
Bruninn
Árið 2011 varð Eric næstum því eldi að bráð er íbúð sem hann svaf í, varð alelda.
„Þetta gerðist þriðja júlí árið 2022 í Queens, New York-borg. Ég var nýkominn aftur eftir mjög vel heppnaða ferð með Squidling Brothers og var að vinna sem sverðagleypið fyrir utan Ripley´s Believe It or Not-safnið á Times Square. Kaldhæðnin í þessu er sú að ég var að nota sverð með innbyggðum eldvarpa við handfangið og var að skjóta eldi á hverjum degi. Ég hafði samt ekkert að gera með eldinn sem kviknaði í íbúðinni sem ég gisti í. Ég var sofandi í bókaherbergi vinar míns þegar hann vakti mig með öskrum um miðja nótt! Eldur breiddist um alla íbúðina, frá veggjum og upp á loft. Hann hljóp í gegnum eldinn og sagði mér að elta sig. Þegar hann opnaði hurðina og kom sér út, kom risastór eldhnöttur á móti mér, vegna súrefnisins. Ég náði að stökkva frá og dansaði yfir heitt gólfið skólaus og með ullarbol fyrir andlitinu. Ég varði svo augun með hinum handleggnum. Ég var fastur í horni baðherbergisins og eldurinn elti mig inn. Ég hugsaði að þetta væri endirinn og ég sá þrjár mikilvægar eftirsjár fyrir augum mér. Ég hafði aldrei farið í Asíu, enginn mun vita neitt um mitt líf og ég hef aldrei eignast börn og mína eigin fjölskyldu. Mér var bjargað af slökkviliðsmönnum en var í dái í sex vikur á spítala. Þegar ég útskrifaðist af sjúkrahúsinu og var búinn að jafna mig nógu vel, fór ég aftur ról með Squidling Brothers-sirkusinn. Ég og bróðir minn fórum um alla Evrópu árið 2012 og svo til Indlands og Japan. Ég var að klára bók um upphaf mitt sem trúður, eldsvoðann og ferðalög mín en bókin verður gefin út næsta vor. Við Heiða giftum okkur árið 2020, þegar ég flutti til Íslands og höfum við síðan eignast soninn Sævar. Þannig að allar deyjandi eftirsjár mínar hafa nú verið uppfylltar!“
Ástin og brotin bein
Og svo hitti Eric ástina. „Ég hitti Heiðu á Coney Iceland sýningunni en hún var þar að taka ljósmyndir og ég féll strax fyrir henni. Það var eins og ég hefði verið sleginn í andlitið af ósýnilegum lófa og ég áttaði mig á að ekki yrði aftur snúið. Það var þannig að eftir að við höfðum hist á fyrstu Coney Iceland-sýningunni á Gauknum, voru bara tveir dagar í að ég færi frá landinu. Þannig að við hittumst á Public House og fengum okkur mat og spjölluðum. Seinna þann dag, eftir lokasýningunni með Margréti Erlu Maack, bauð Heiða okkur úr frík-sýningunni heim til sín í ljóðalestur og sveppate. Auðvitað varð ég að fara en ég var sá eini sem vildi fara því allir voru svo þreyttir og vildu pakka niður fyrir ferðalagið daginn eftir. Ég vildi ekki fara úr íbúðinni en þurfti að ná flugfél daginn eftir. Ég bauð henni að túra með okkur í Squidling Brothers næsta mánuð á eftir en við ferðuðumst frá Denver til Los Angeles og svo til New Orleans yfir Hrekkjavökuna. Hún kom með og ferðin var frábær fyrir okkur. Hún var kannski ekki eins frábær fyrir hina þrjá Squidlingana sem söknuðu allir kærastanna.“
En svo kom áfallið.
„Stuttu eftir að túrnum lauk, féll ég af þaki húss sem ég var að vinna í, braut báðar fæturnar og brákaði á mér hrygginn! Sjö árum eftir brunann var ég aftur kominn á spítala. Heiða kom til að sjá um mig og í janúar fór ég að heimsækja hana en ég var í hjólastól. Ég var hjá henni í sex vikur. Þetta var í lok 2018 og byrjun 2019. Í byrjun árs 2020 hófum við stóran túr um Evrópu en við byrjuðum á Íslandi. Við fórum til Þýskalands, Hollands, Frakklands, Spánar , Ítalíu, Slóveníu, Austurríki og Póllands. Heiða hitti okkur þegar við komum til Ítalíu. Þegar túrinn var búinn var Covid-heimsfaraldurinn kominn á fullt skrið. Við vorum með Covid-brúðkaup, seinna það ár með aðeins átta gestum.
Kinký-sirkussýning
Eric segir að nú sé kominn tími til að skemmta sér en Coney Iceland verður með all sérstaka sýningu þann 10. nóvember en hún er bönnuð börnum. „Sýningin er í Iðnó og er metnaðafyllsta sýning okkar til þessa. Heiða er að fara með okkur á næsta stig með þessum viðburði. Þetta verður gagnvirk upplifun með mat, ráfandi flytjendum sem tilbúnir eru að bregða á leik einn á móti einum með áhorfendum. Boðið verður upp á Sirkus-glæfrabrögð, galdra, blætis-leiki, drag, burlesque, sverðakyngja og eldlist.“
Eftir sýninguna verður svo danspartý með plötusnúði en þar verða líka óvæntar uppákomur. Sýningin er styrkt af Losti.is.
Trúður á Íslandi
Að lokum spurði blaðamaður Mannlífs Eric hvernig það sé að vera trúður á Íslandi.
„Það hefur verið svolítið krefjandi að vera trúður á Íslandi því ég er vanari mun stærri borgum þar sem finna má fullt af sýningum, öllum stundum. En þetta hefur verið mjög gefandi því ég held að fólk kunni að meta skrítnar sýningar, sem ég er meira í hér á landi, því fólk er ekki vant því hér. En svo hefur það verið stórkostlegt að verða pabbi í fyrsta skiptið og það er gott að hægja aðeins á sér til að einblína á son minn en hann hefur verið að læra að tala og ganga. Og nú er hann farinn að hlaupa!“