Lögreglan á Vestfjörðum bað Landhelgisgæsluna um aðstoð vegna slæmrar veðurspár og hugsanlegrar snjóflóðahættu um helgina. Lagði því áhöfnin á varðskipinu Freyju af stað úr höfn á Siglufirði að miðnætti í gær og er væntanlegt vestur á firði í morgunsárið.
Almannavarnir vöruðu í gær við veðurspá helgarinnar, sem er slæm og að hætta væri á að færð myndi spillast og snjóflóðahætta myndist á Vestfjörðum, samkvæmt heimasíðu Langhelgisgæslunnar. Átján manna áhöfn Freyju, sem var á bakvakt, brást fljótt við hjálparbeiðninni og hóf strax undirbúning fyrir brottför.
Þá kemur fram á vef Gæslunnar að miðað við veðurspánna eru miklar líkur á að skipið verði til taks á Vestfjörðum fram yfir helgi.