Þrátt fyrir gott gengi systranna Siggu, Betu og Elínar, jú og bróður þeirra, Eyþórs, á æfingum í Tórínó er gengi þeirra í veðbönkum ekki eins gott – að minnsta kosti ekki enn sem komið er. Þeim er ekki spáð upp úr riðlinum annað kvöld en eins og spekúlantar þekkja getur slíkt tekið snöggum breytingum eftir lifandi flutning á sviðinu. Úkraínu er áfram spáð sigri.
Veðbankar sem teknir eru saman á síðunni Eurovisionworld hafa hingað til ekki spáð Systrum ofarlega, þótt þær hafi klifrað upp listann eftir fyrstu æfinguna á stóra sviðinu. Þar þóttu þær (og Eyþór, sem af einhverjum ástæðum verður alltaf útundan) standa sig með stakri prýði, enda fagmanneskjur fram í fingurgóma á sviði tónlistar og söngs.
Eins og sakir standa er þeim þó ekki spáð upp úr sínum riðli í fyrri undankeppninni, sem er á dagskrá annað kvöld, þann 10. maí. Á þeim lista Eurovisionworld verma þær 13. sætið, með 38 prósent líkur á að komast áfram í aðalkeppnina.
Þau lönd sem þykja líklegust til að komast upp úr sama riðli eru Úkraína, Grikkland, Noregur, Holland, Armenía, Portúgal, Albanía, Moldavía, Lettland og Sviss.
Úkraína með yfirgnæfandi líkur
Úkraínu hefur undanfarið verið spáð sigri af veðbönkum og er engin breyting þar á þegar síðan er skoðuð í dag. Þegar kemur að líkum á að hafna í einu af fimm efstu sætunum eru það Úkraína, Ítalía, Svíþjóð, Bretland og Spánn sem er spáð bestu gengi. Þegar stuðlar fyrir sigurvegara eru skoðaðir er Úkraína með yfirgnæfandi líkur á sigri, eða 49 prósent. Þar á eftir koma Bretland og Ítalía með 10 prósent vinningslíkur. Atriði Svíþjóðar er talið hafa 9 prósent vinningslíkur og Spánn 4 prósent.
Hægt er að skoða ýmsa lista á síðunni en einn þeirra inniheldur eingöngu Norðurlöndin og raðar þeim upp í sæti eftir líkum. Þar er Svíþjóð með töluverða yfirburði og vermir efsta sætið. Noregur er í öðru sæti, Finnland í því þriðja, Ísland í fjórða sæti og Danmörk í botnsætinu.
Gott gengi á æfingum og í fjölmiðlum
Eins og áður sagði þykja Systur hafa staðið sig afar vel á æfingum og hafa horfur þeirra orðið betri eftir það. Auk þess kemur hópurinn afar vel fyrir í fjölmiðlum þar ytra og á blaðamannafundum. Systurnar hafa mikið talað fyrir málefnum hinsegin samfélagsins og transfólks, auk þess að beina athygli að stríðinu í Úkraínu og sýna þjóðinni stuðning. Þau áherslumál hafa fengið góðan hljómgrunn.
Íslenski hópurinn hefur nú allur fengið neikvæða niðurstöðu út úr seinna Covid-19 prófinu sínu og því ljóst að hann mun stíga á svið í fyrri undankeppninni. Frammistaða þeirra þar gæti hæglega snúið líkunum þeim í vil. Þess ber að geta að ýmsir spekúlantar töldu hækkun sem bætt var inn í lagið gera mikið fyrir það í flutningi.