Sækja þurfti veiðimann með þyrlu Landhelgisgæslunnar í nótt en maðurinn fékk brjóstverk meðan hann var á hreindýraveiðum með þremur félögum sínum. Mennirnir voru staddir í Sandvík milli Eskifjarðar og Norðfjarðar í nótt og treysti maðurinn sér ekki til að ganga lengra vegna brjóstverkja. Ákveðið var af björgunarsveitarfólki að kalla til þyrlu frekar en að bera manninn á sjúkrabörum en svæðið er óaðgengilegt fyrir ökutæki. Maðurinn var sóttur rétt fyrir þrjú í nótt og fluttur á sjúkrahús í Neskaupstað en RÚV greindi frá málinu. Ekki er vitað um líðan mannsins að svo stöddu.