Þinglýstum eigendum fasteigna berst tilkynning ef einstaklingur skráir lögheimili í eign þeirra. Sé skráningin röng fellur það á hlut þinglýsta eigenda að tilkynna málið, sem þó hafa ekki viðeigandi upplýsingar til að útfylla tilgefið skráningarform Þjóðskrár.
Þinglýstum eiganda berst tilkynning þegar einstaklingur skráir lögheimili í eigninni. Í tilkynningunni segir:
„Samkvæmt 12. gr. laga um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018 skal þinglýstur eigandi
hlutast til um að skráning lögheimilis einstaklinga sem hafa fasta búsetu í húsnæði hans
sé rétt. Þjóðskrá Íslands skal senda tilkynningu í pósthólf þinglýsts eiganda fasteignar á
Ísland.is um þá sem skrá lögheimili sitt í fasteign í hans eigu.“
Því næst kemur fram um hvaða eign ræðir og nafn þess nýskráða.
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að tilkynna þurfi til stofnunarinnar ef um ranga skráningu sé að ræða:
„Ef ekki er um rétta skráningu að ræða skal tilkynna það til Þjóðskrár Íslands með því að fylla út flutningstilkynningu (A-250) sem er að finna á www.skra.is og velja þar aðgerðina
„Tilkynna um rangt heimili 3ja aðila”.“
Illgerlegt að tilkynna ranga skráningu
Ef skráningin er röng þarf að fylla út áður nefnda flutningstilkynningu (A-250) og ber þar að rita kennitölu þess nýskráða. Þinglýstum eiganda berst einvörðungu nafn þess nýskráða og eru þar af leiðandi upplýsingarnar sem Þjóðskrá óskar eftir óþekktar þeim sem ber að tilkynna.
Í samtali við Mannlíf segir starfsmaður Þjóðskrár að innanhúss ríki þekking um gallann og þessar ógagnlegu leiðbeiningar og unnið sé í úrbótum.
Til að nálgast upplýsingar um hverjir eru skráðir til lögheimilis í eigninni þarf þinglýstur eigandi að hafa samband í gegnum tölvupóst Þjóðskrár ([email protected]) og senda afrit af skilríkjum sínum til auðkenningar. Því næst er hægt að fá upplýsingar um kennitölur ábúenda og eigandi getur þá fyrst tilkynnt ranga skráningu.