Pitsustaðurinn Spaðinn stendur við gefin loforð um að veita Dominos harða samkeppni á markaðnum. Til að mynda er Spaðinn með svokallað „þriðjudagstilboð“, en það hefur verið eitt af einkennismerkjum Dominos og nýtur mikilla vinsælda á hverjum þriðjudegi. Reyndar er Hamborgarabúlla Tómasar líka með þriðjudagstilboð, en þar eru engar pitsur.
Þórarinn Ævarsson, stofnandi Spaðans, lýsti því yfir síðastliðið vor að hann hefði í hyggju að setja Dominos á hausinn á fimm árum. Hann hafði þá þegar reynt að kaupa flatbökukeðjuna en mistekist. Spaðinn varð til í staðinn.
Vegna hinnar hörðu samkeppni á milli þessara tveggja staða er ekki úr vegi að kanna hvor þeirra býður betur þegar kemur að þriðjudagstilboðum.
Dominos hefur lengi vel boðið þriðjudagstilboð á sömu kjörum: miðstærð af pizzu (12 tommur) með þremur áleggstegundum fyrir 1.000 krónur.
Spaðinn býður 16 tommu pitsu af matseðli á 1.600 krónur.
Þarna er 600 króna verðmunur, en sömuleiðis er munur á stærð pitsunnar sem í boði er og eðli pöntunarinnar. Þar sem Spaðinn býður sitt verð á öllum pitsum af matseðli er því hægt að athuga hvað gerist ef pitsa af matseðli er valin í stað pitsu með þremur áleggstegundum hjá Dominos.
Ef prófað er að breyta yfir í pitsuna Meat and cheese, innan þriðjudagstilboðsins, bætast 385 krónur við verðið. Það gera 1.385 krónur í heildina, sem enn er 215 krónum ódýrara en á Spaðanum. En eins og áður sagði inniheldur tilboð Spaðans stóra pitsu, á meðan Dominos býður miðstærð.
Ef reiknað er út flatarmál 16 tommu pitsu og 12 tommu pitsu (lesendum verður hlíft við stærðfræðidæminu hér) og sá munur borinn saman við verðmuninn kemur í ljós að ef stærri pitsan kostar 1.600 krónur þyrfti sú minni að kosta um það bil 896 krónur til að verðið væri í samræmi við stærð.
Stærðarmunurinn trompar því 215 króna verðmuninn og niðurstaðan er sú að þriðjudagstilboð Spaðans er hagstæðara en þriðjudagstilboð Dominos – þó naumlega sé.