Ragnar Freyr Ingvarsson læknir gagnrýnir harðlega að öllum hjúkrunarfræðingum Læknavaktarinnar verði sagt upp fyrir mánaðamót þar sem til standi að færa símaráðgjöf Læknavaktarinnar yfir til Heilsugæslunnar.
„Heilsugæslan er að sölsa undir sig verkefni sem hefur verið í meira þrjá áratugi á höndum Læknavaktarinnar. Við góðan orðstír og í stöðugri þróun,“ segir Ragnar í Facebookfærslu um málið.
Elva Björk Ragnarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar hjá Læknavaktinni, segir í frétt á Vísi að það sé óskiljanlegt að yfirvöld ætli að færa þjónustuna á milli staða í ljósi stöðunnar í heilbrigðiskerfinu.
Hún segir starfsemina hafa verið í mjög góðum farvegi hjá Læknavaktinni og í rauninni hafi einu skýringarnar sem þau fengu verið þær að það þyrfti að samræma upplýsingagjöf á einum stað, hjá heilsugæslunni. Þetta sé þó slæmt skref á þessari stundu, ekki síst í ljósi yfirlýsinga Landspítala um gríðarlegt álag á bráðamóttöku
Ragnar talar um að: „Það er verið að lækka þjónustustig með því að setja ritara í framlínu sem hingað til hefur verið mönnuð hjúkrunarfræðingum. Og þetta mun kosta mun meira en það gerir í dag!,“ segir Ragnar.
Hann útskýrir jafnframt að biðtími eftir lækni hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 4-8 vikur og því skjóti skökku við að stofnunin sé að bæta við sig fleiri verkefnum.
Ragnar segir að lokum: „Algert klúður í uppsiglingu!“