Í kjölfar frétta um konuna sem starfaði sem „au pair“ hér á landi og bjó við óviðunandi aðstæður, skapaðist mikil umræða á samfélagsmiðlum.
Útlendingastofnun felldi úr gildi þá ákvörðun um að afturkalla dvalarleyfi konunnar eftir að hún hætti störfum hjá fjölskyldunni. Konan, sem er frá Filippseyjum, lýsti aðstæðum sem hún hafi búið við og ströngum reglum um þrif og viðhald heimilsins. Henni hafi verið gert að fylgja reglunum og álagið verið gífurlega mikið en Vísir fjallaði um málið fyrir helgi.
Í kjölfar umræðunnar birtust skjáskot á samfélagsmiðlum sem vöktu mikla reiði en þar má sjá strangar reglur og verkefnalista, ætlaður au pair stúlku. Samkvæmt heimildum Mannlífs eru skjáskotin frá árinu 2019 og því ekki talin tilheyra au pair málinu sem fjallað var um fyrir helgi. Þrátt fyrir það eru reglurnar strangar og mikið til ætlast af au pair konunni.
Myndin sýnir vikulegan lista sem er ætlaður au pair. Hér að neðan má lesa listann á Íslensku.
„Mánudagur: Skipta um á öllum rúmum, taka til og þrífa eldhús skúffur
Þriðjudagur: Þrífa skúffur í þvottahúsi, taka til í fataskúffum í barnaherbergjum
Miðvikudagur: Skúra gólfin, þrífa borð, djúphreinsun á klósetti
Fimmtudagur: Þrífa rusla herbergi, þrífa skó stand, þurrka af í öllum herbergjum og þrífa gler
Föstudagur: Þrífa ísskáp, þrífa garðinn
Laugardagur: Skúra gólf, þrífa borð, djúphreinsa klósett“
Samhliða verkefnunum átti au pair að sinna börnunum, hundinum og undirbúa mat líkt og sjá má á skjáskotinu hér að neðan.
Samkvæmt planinu átti dagurinn að hefast klukkan sjö með því að undirbúa morgunmat fyrir fjölskylduna. Því næst átti au pair að senda krakkana í skólann og fara með hundinn í göngutúr. Eftir það tók við þvottur, tiltekt og þrif en gert var ráð fyrir aðeins einum og hálfum klukkutíma í frí yfir daginn. Deginum lauk klukkan átta um kvöldið en þar stendur: „Búin á vakt, aftur í herbergið sitt“