Kjaradeila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins er nú í algjörum hnút en verkfall bílstjóra og hótelstarfsmanna sem eru í Eflingu er hafið. SA hefur boðað til atkvæðagreiðslu um það hvort leggja eigi verkbann á alla meðlimi Eflingar. Niðurstaða er að vænta á morgun.
Verkbann er verkfæri atvinnurekanda í kjaradeilum og er oft litið á það sem vopn þeirra gegn verkföllum. Verði verkbannið nú samþykkt getur SA bannað öllu félagsfólki Eflingar að mæta til vinnu og mun það ekki fá greidd laun. Verði það samþykkt mun það hefjast þann 28. febrúar. En hvað þýðir verkbannið fyrir almenning?
Í stuttu máli myndi höfuðborgarsvæðið lamast. Félagsfólk Eflingar starfar víða á sviðum atvinnulífsins, bæði hjá opinberum stofnunum og í einkageiranum. Þá er verið að tala um mötuneyti, ræstingar, ummönnunarstörf á borð við leikskóla, heimaþjónustu og á sjúkrastofnunum. Þá sinnir Eflingarfólk einnig almennum stöfum verkafólks í iðnaði, framleiðslu, flutningum, byggingavinnum, við vega og hafnarvinnu, landbúnaðarstörf og þá annast þau aukreitis ýmsa vélavinnu í tengslum við verklegar framkvæmdir. Enn fremur eru almenn störf á veitinga- og gistihúsum unnin af fólki innan Eflingar, sem og öryggisvarsla, bensínafgreiðsla og dekkjaverkstæðaþjónusta.
Stærstu vinnuveitendur innan Eflingar eru fjármála- og efnahagsráðuneytið, Reykjavíkurborg, Landspítalinn, Kópavogsbær, ýmis ræstingafyrirtæki, olíu- og skipafélögin.
Sem sagt, verkbann myndi hafa gríðarleg áhrif á höfuðborgarsvæðinu, þar sem langflestir félagsmenn Eflingar starfa. Gististöðum yrði lokað, veitingastöðum, mötuneytum og erfitt myndi reynast að halda leikskólum opnum. Þá myndu framkvæmdir liggja niðri og sjúkrastofnanir vera í lamasessi. Þá myndi bensín- og díselskortur gera vart við sig því enginn væri til að flytja það. Aukreitis gætu matvöruverslanir ekki geta haldið opnu. Listinn yfir áhrifin er ekki tæmandi.