Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-1 C
Reykjavik

Verkfallsverðir hleyptu úr dekkjum og spreyjuðu ryðvarnarefni á rúður – Rúta keyrði á einn þeirra

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mikið gekk á morguninn 15. janúar árið 1990, þegar þriggja daga verkfall Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis hófst en Landleiðir höfðu þá fengið menn til að ganga í störf þeirra rútubílsstjóra sem voru í verkfalli.

Litlu mátti muna að ekki færi verr þegar rútubílsstjórar á vegum Sleipnis mættu með verkfallsverði til að stöðva það sem þeir kölluðu verkfallsbrot. Hafði þá Landleiðir fengið menn í störf þeirra ökumanna sem voru í verkfalli. Kom það ekki til greina að mati Sleipnismanna en þeir hindruðu með öllum tiltækum ráðum að akstur gæti hafist. Hleyptu verkfallsverðir úr dekkjum bílanna, sprautuðu ryðvarnarefni á framrúðu þeirra og þá var jafnvel skorið á eitt dekkið. Versta tilfellið varð þó þegar ein leigurútan ætlaði að leggja af stað í Hafnarfirði, en verkfallsvörður gekk þá í veg fyrir rútuna og varð fyrir henni. Slasaðist hann ekki en lögreglan var kölluð á vettvang.

Hér má lesa um átökin en DV skrifaði frétt um málið á sínum tíma:

Verkfallsátök hjá Landleiðum í morgun: Hleypt úr dekkjum og ekið á verkfallsvörð – engar strætóferðir milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur

Í morgun hófst þriggja daga verkfall Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis sem í eru rútubifreiðastjórar. Og í morgun gekk mikið á bæði í Hafnarfirði og í Reykjavík þegar hefja átti ferðir á milli með Landleiðabifreiðum. Landleiðir höfðu fengið menn til að ganga í störf þeirra bifreiðastjóra sem lagt höfðu niður vinnu. Sleipnismenn voru hins vegar mættir með verkfallsverði og hindruðu með öllum ráðum að akstur gæti hafist. Að sögn Pálma Pálmasonar hjá Landleiðum hleyptu verkfallsverðir úr dekkjum bifreiðanna, sprautuðu ryðvarnarefni á framrúður þeirra og í einu tilfelli sagði hann að skorið hefði verið á dekk bifreiðar. Það var í Lækjargötunni, þar sem er endastöð Landleiðabifreiða sem ganga milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Landleiðir fengu líka leigurútur til að aka. Þegar ein slík ætlaði af stað, við endastöð í Hafnarfirði, gekk verkfallsvörður fram fyrir bílinn og var ekið á hann. Lögreglan var kölluð til og málið kært. Maðurinn mun ekkert hafa slasast. Hafsteinn Snæland, í verkfallsstjórn Sleipnis, sagðist ekki kannast við að dekk hefðu verið skorin. Aftur á móti að lofti hefði verið hleypt úr dekkjum og ryðvarnarefni sprautað á rúður. Hann sagði að allir bifreiðastjóra Landleiða væru í verkfalli en viðgerðarmenn og aðrir starfsmenn hefðu ætlað að ganga í störf þeirra. Það hefði verið stoppað og Sleipnismenn myndu halda uppi fullri verkfallsvörslu meðan verkfallið stæði yfir. Allar ferðir hjá Norðurleið hf„ milli Akureyrar og Reykjavíkur, liggja niðri. Sömuleiðis liggja niðri ferðir sem Kynnisferðir hf. annast, þar á meðal með farþega í millilandaflugi milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Nokkur rútufyrirtæki, eins og til að mynda Vestfjarðaleið, halda uppi áætlun á sínum leiðum þar sem um er að ræða fjölskyldufyrirtæki og eigendur eru ökumenn. 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -