Byggingartæknifræðingurinn Skúli Ágústsson, varaði við því hraunflæði sem tók Njarðvíkurlögn í sundur í eldgosinu sem hófst á fimmtudaginn síðastliðinn. Verktaki sem vann við bætingu á lögninni 1992, segir hana hafa verið hálf ónýta á þeim tíma.
Mbl.is segir frá því að Skúli Ágústsson byggingartæknifræðingur, sem hefur unnið fyrir HS Orku, hafi varað almannavarnir og viðbragðsaðila við nákvæmlega því hraunflæði sem tók Njarðvíkurlögn í nýjasta eldgosinu. Það gerði hann fyrst árið 2020 og aftur í pósti til almannavarna, HS Orku, lögreglunnar og Grindavíkurbæjar, þann 29. desember síðastliðinn.
Í póstinum segir hann að hann telji að mistök hafi verið gerð er varnargarðarnir voru byggðir utan um Svartasengi.
„Þessi varnargarður sem nú þegar er kominn frá Sýlingarfelli og utan um byggðina í Svartsengi leiðir aðeins hraun að Grindavíkurvegi. Tekur í sundur Grindavíkurveginn, heitavatnslögn til Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga. Rýfur rafmagnslínu frá Svartsengi og síður en ekki síst rýfur kaldavatnslögn til orkuversins því kaldavatnslögnin er grunnt í jarðvegi frá Gjánni (aðal vatnstökusvæði Suðurnesja) og því hefur engan tilgang að vera að setja nýja heitavatnslögn djúpt í jörð á þessu svæði þar sem heitavatnið er nú bara kalt upphitað vatn sem kemur frá Gjánni. Verði stórt hraungos á nýju sprungunni þá myndi Svartsengi einangrast og engin kæmist þangað nema fuglinn fljúgandi eða með þyrlum því Grindavíkurvegur færi undir hraun báðum megin við Svartsengi og Norðurljósavegurinn einnig,“ segir Skúli í póstinum.
Fram kemur í frétt mbl.is að stór hluti þess sem Skúli spáði fyrir um, hafi raungerst í eldgosinu en hins vegar hafi hraunið ekki náð að kaldavatnslögnum nema að hluta.
„Ég gerði þetta um helgi að gamni mínu út frá hæðarlínukorti. Ég var mikið í Grindavík sem gutti og það er eiginlega ástæðan fyrir því að ég gerði þetta,“ segir Skúli en það gerði hann árið 2020. „Þá höfðu samband við mig tveir menn, annar frá Neyðarlínunni og hinn frá lögreglunni. Þeir fengu þetta sent til sín árið 2020 en síðan hef ég ekkert heyrt meira í þeim.“
Í samtali við mbl.is segir Skúli að ekki hafi verið tekið tillit til hæðarmælinga við byggingu varnargarðanna.
„Alls ekki. Það hefði átt að gera varnargarð frá Sýlingarfelli að Gíghúsahæð, en í stað þess var gerður varnargarður utan um mannvirkin í Svartsengi. Það var ekki þörf á því ef miðað er við það hvar gosið hefur undanfarin þúsund ár.“
Bendir hann þó á að hann sýni því vissulega skilning að varnargarðurinn hafi verið byggður um Orkuverið enda miklir hagsmunir þar undir en að hann telji að mun betur hefði verið hægt að vinna hlutina, með styttri og markvissari varnargarða.
Lögnin ónýt 1992