Karlmaður var nýverið dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir að hafa stjórnað skipi undir áhrifum vana- og fíkniefna en í blóði mannsins mældist kannabis. Í dómi Héraðsdóms Vestfjarða segir að maðurinn hafi verið ófær um að stjórna skipinu sem var 7,48 brúttótonn, 9,25 metrar og með 190,40 kW aðalvél. Þegar málið var þingfest mætti maðurinn ekki og var því farið með það eins og hann hefði játað háttsemina. Vísir greindi frá málinu í gær en í athugasemdum fréttarinnar steig maðurinn fram og tjáði sig um daginn örlagaríka.
„Èg var einn um borð í trillunni minni og engin hætta á ferð að mér fannst. Hafði fengið mér jónu þarna fyrr um daginn í blíðskaparveðri og var ekkert skakkur þegar ég kom í land þótt þetta hafi mælst í mér. Að handtaka og handjárnaða mig og færa mig þannig til yfirheyrslu og blóðtöku á ísafirð var upplifun. Ég var bláedrú þótt þetta hafi mælst í mér þarna, var kannski skakkur í 10 mínútur þarna fyrr um daginn. Grasvíma stendur stutt yfir eins og flestir vita. Finnst nú helvíti hart ađ dæma mann í fangelsi fyrir þetta.“
Vert er að geta þess að maðurinn var kosinn Vestfirðingur ársins fyrir nokkrum árum síðan eftir að hann vann hetjudáð og bjargaði tveggja ára dreng frá drukknun.