Í Grindavík er nú unnið hörðum höndum að því að kortleggja og ná utan um stærð og umfang sprungna á svæðinu. Jarðhræringar á Reykjanesi og staðan í Grindavík hafa fengið marga íbúa höfuðborgarsvæðins til að velta fyrir sér hvort viðlíka hamfarir geti raungerst innan borgarmarkanna. Í nóvember 2018 birtist greinin, Bergsprungur og byggingar á höfuðborgarsvæðinu, í Verktækni – Tímariti Verkfræðingafélags Íslands í henni segir:
„Því er stundum haldið fram að „það séu sprungur alls staðar á Íslandi og því engin leið að byggja nema undir sé sprunga“. Þetta er rangt. Vissulega eru bergsprungur algengar á Íslandi, en þær skipa sér oftast í ákveðin kerfi sem hægt er að kortleggja, sjá mynd 1. Sprungur sem eru líklegar til að haggast á næstu öldum, er flestar tengdar flekaskilunum sem liggja í gegnum landið.“
Höfundar vísindagreinarinnar Dr. Páll Einarsson, prófessor, Dr. Haukur Jóhannesson og Dr. Ásta Rut Hjartardóttir, hafa öll á sínum ferli verið kallaðir til ráðgjafar við mannvirkjagerð þar sem bergsprungur koma við sögu.
Bergsprungur og byggingar á höfuðborgarsvæðinu
Austasti hluti höfuðborgarsvæðisins liggur innan sprungusveims Krýsuvíkur.
„Á seinustu áratugum hefur byggð og mannvirkjagerð færst lengra inn á svæði þar sem virkar bergsprungur eru algengar. Þetta á sérstaklega við um höfuðborgarsvæðið en önnur þéttbýlissvæði má einnig nefna, t.d. Húsavík, Kópasker, Selfoss og Grindavík. Í umfjöllun framkvæmdaaðila um sprungurnar og þau atriði sem varast ber gætir stundum nokkurrar ónákvæmni og stundum vantar á að þeir sem um málið fjalla hafi fylgst með breyttum hugmyndum og auknum skilningi sem fengist hefur með rannsóknum hin síðari ár,“ segir í greininni.
Á næstu mynd má bersýnilega sjá hvernig ný hverfi hafa risið á þekktum sprungusvæðum á höfuðborgarsvæðinu.
Víða byggt á þekktum sprungusvæðum
Eins og sjá má á kortinu hefur víða verið byggt á þekktum sprungusvæðum. Ber þar að nefna við Urriðakotsvatn, Elliðavatn, Norðlingaholt og við Rauðavatn.
„Á byggingasvæðinu við Urriðakotsvatn hafa komið í ljós opnar sprungur þegar grafið var fyrir húsgrunnum. Mjög dregur af þessari grein sveimsins þegar norðar dregur. Þó má
líklega rekja til hans tilvist sprungna sem komið hafa í ljós í húsgrunnum í Hólahverfi í Breiðholti. Megingrein sprungusveimsins heldur áfram til NA um Heiðmörk og liggur Elliðavatn í dældinni þar sem sigið hefur mest. Austurmörk sprungusvæðisins eru þar
nokkuð óljós vegna ungra hrauna sem runnið hafa austan frá Bláfjallasvæðinu og yfir sprungurnar,“ skrifa greinahöfundar.
Flokkun sprungna á virku svæði
„Það er sjálfsögð varúðaraðgerð að byggja mannvirki einungis á óbrotnum spildum milli sprungna. Með því má koma í veg fyrir slys og draga úr tjóni í náttúruhamförum framtíðarinnar. Kostnaðaraukning er hins vegar óveruleg. Það er stundum lögð umtalsverð vinna í að flokka þekktar sprungur í „virkar“ og „óvirkar“ sprungur. Aðferðir byggja oftast á því að grafa skurði þvert yfir sprungurnar og athuga jarðvegssnið. Þessi flokkun orkar tvímælis í besta falli,“ segir í greininni.
Erfitt er að flokka sprungurnar á höfuðborgarsvæðinu sem óvirkar á virku hreyfikerfi:
„Sprungusveimur Krísuvíkur er ótvírætt virkur enda er hann hluti af aflögunarsvæði meginflekaskilanna í gegnum landið. Það er engin leið að flokka einstakar sprungur innan sveimsins sem „óvirkar“ og aðrar sem „virkar“. Þær verða allar að teljast virkar í þeim skilningi að þær eru hluti af hreyfikerfi sem er sannanlega og mælanlega á hreyfingu.“
Sprungusvæði ónothæf eða ekki
Vangaveltur og skoðanir hafa verið uppi um að sprungusvæði séu ónothæf til bygginga og/eða annarra nota. Er skoðun greinahöfunda að:
„Þetta er að okkar mati fjarri lagi. Sprungusvæðin á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess eru flest hlutar af sprungusveimum eldstöðvarkerfanna á Reykjanesskaga. Þessi sprungukerfi eru virk fyrst og fremst í tengslum við kvikuvirkni kerfanna. Miklar færslur á sprungum eru líklegastar þegar gangainnskot verða innan sveimsins. Þeim fylgja skjálftar en þeir verða sjaldan stórir.“
Greinahöfundar segja hættuna sem stafar af sprungunum vera aðallega vegna sprunguhreyfinga. Mannvirki innan sprungusveimanna ættu því ekki að verða fyrir meira tjóni en ella nema þau standi á sprungunum og séu tengd berggrunninum báðum megin.
„Við teljum skynsamlegt ákvæðið í reglugerð að „óheimilt sé að byggja á þekktum jarðsprungum, misgengi eða nálægt hverum“. Sprungurnar og næsta nágrenni þeirra má hins vegar nýta til annarra hluta, sem útivistarsvæði, fyrir lagnastokka, gangstíga, bílastæði, akbrautir o.s.frv“