Íslenskum stjórnvöldum er hrósað sérstaklega í alþjóðlegri skýrslu fyrir þolendur kynbundins ofbeldis.
UN Women og Þróunarsamvinnustofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) hafa gefið út nýja skýrslu um viðbragðsáætlanir ríkja heimsins við COVID-19 faraldrinum. Í skýrslunni er sérstaklega fjallað um viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna kynbundins ofbeldis gegn konum og börnum.
Skýrslan heitir Government Responses to COVID-19: Lessons on Gender Equality for a World in Turmoil og kom út í sumar.
Brugðust við auknu álagi
Viðbrögð íslenskra stjórnvalda voru að styðja betur við þau þjónustuúrræði sem þegar voru til staðar og tryggja áframhaldandi starfsemi þeirra vegna aukningu kynbundins ofbeldis gegn konum og börnum á tímum COVID-19.
Í skýrslunni er því einnig lýst að íslensk stjórnvöld hafi skipað teymi sérstaklega til að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi.
Meðal þess sem teymið lagði til var að koma yrði á fót upplýsingatorgi, opna kvennaathvarf á Akureyri, auka stuðning við börn í viðkvæmri stöðu og auka fjárveitingar til frjálsra félagasamtaka og sveitarfélaga til að halda úti þjónustu.
Þannig fékk Kvennaathvarfið 100 milljónir til að bæta húsakost sinn og aðgengi; Stígamót fékk 20 milljónir til að bregðast við auknu álagi og draga úr biðtíma og Reykjavíkurborg fékk styrk til að fjármagna tímabundið húsnæði fyrir heimilislausar konur.
Almennt ekki hugað að kynjasjónarmiðum
Efni skýrslunnar er unnið af greiningardeildum UN Women og UNDP og fjallar um aðgerðir stjórnvalda um allan heim vegna COVID-19 með tilliti til kynjasjónarmiða og jafnréttis. Unnið var með gögn frá 226 ríkjum heims og var niðurstaðan sú að almennt var ekki hugað að kynjasjónarmiðum í viðbragðsáætlunum ríkja.
- 13 ríki af 226 gerðu aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi að ríkjandi stefnu í aðgerðaráætlunum sínum.
- 0,0002% af fjármagni sem fór í COVID-19 viðbragðsáætlanir fór í að uppræta kynbundið ofbeldi.
- Ríki sem eiga sterka feminíska hreyfingu voru talsvert líklegri til að taka tillit til kynjasjónamiða í COVID-19 áætlunum sínum en þau ríki þar sem engin eða veik feminísk hreyfing er við lýði.
- 12% af efnahagsáætlunum ríkja studdu við efnahagslegt öryggi kvenna.
- 82% af aðgerðarteymum þessara 226 ríkja voru skipuð karlmönnum að mestu. Aðeins 7% aðgerðateyma voru með jafnt kynjahlutfall. 11% voru skipuð konum að mestu.
Í skýrslunni er einnig farið yfir úrræði sem þóttu vel til takast, líkt og úrræði íslenskra stjórnvalda til að sporna geng kynbundnu ofbeldi og auka þjónustu til þolenda kynbundins ofbeldis á tímum COVID-19.
Oftast dregið úr þjónustu þegar þörfin eykst
Í skýrslunni kom fram að þegar hamfarir, átök eða efnahagsþrengingar herja á, eykst tíðni kynbundins ofbeldis. Á sama tíma skerðist aðgengi að þjónustu, m.a. vegna þess að innviðir verða fyrir skemmdum eða dregið er úr fjárveitingum.
Á tímum COVID-19 jókst tíðni kynbundins ofbeldis umtalsvert á sama tíma og aðgengi að úrræðum var takmarkað vegna samkomubanna og fjárskorts.