Covid-smitum fjölgar enn og faraldurinn er á uppleið, samkvæmt yfirlögregluþjóni, en níutíu og sex greindust með kórunuveiruna innanlands í gær.
Þrátt fyrir að öll grímuskylda hafi nú þegar verið afnumin ráðleggur Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, almenningi að nota grímur í fjölmenni, í pistli í Morgunblaðinu í morgun.
Ljóst er að enn ein bylgja kórónuveirufaraldursins er skollin á hér á landi.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, segir að skynsamlegast sé að fara í aðgerðir til að stöðva þróunina. Þau áform um að afnema allar takmarkanir þann 18. nóvember næstkomandi eru svo gott sem fokin út í veður og vind.
Víðir segist ekki vita hvort kalla eigi tilslakanir á sóttvarnarreglum innanlands mistök eða ekki, í samtali við RÚV. Hann segir okkur núna enn og aftur hafa öðlast þá reynslu að tilslökunum fylgi bylgja í faraldrinum.
„Við höfum alltaf verið að vona það að bylgjan væri ekki stærri en svo að kerfið ráði við hana. Það er óskhyggja oft í þessu að það sé þannig, en við erum þar núna að það styttist í að kerfið okkar verði komið að þolmörkum. Ég held að það sé augljóst,“ segir Víðir.
„Við erum búin að gera þetta svo oft. Slaka á og þurfa að herða. Ég veit ekki hvað við ætlum að gera þetta oft áður en við finnum einhverja leið sem verður þess valdandi að við getum haldið fjölda smita þannig við ráðum við það. Þegar við vorum með 40-50 smit þá gekk þetta ágætlega. Ég held að það sé lína sem við þurfum að horfa til.“
Ástandið á Selfossi er slæmt. Mikið hefur verið um smit þar, röð í sýnatöku er afar löng og staðan á sjúkrahúsinu þar í bæ er þung. Smit í Fjölbrautarskóla Suðurlands hafa lamað skólastarfið.
Víðir hvetur fólk eindregið til að fara að öllu með gát og fara í hraðpróf ef til stendur að sækja stóra viðburði. Þegar hefur ýmsum viðburðum verið frestað sem áttu að fara fram um helgina og næstu daga. Dæmi um það er árshátíð embættis Ríkislögreglustjóra, en hún átti að fara fram í kvöld og hefur verið aflýst í ljósi stöðunnar sem nú er uppi.