Vigfús Markússon skipstjóri hefur gengið í gegnum raunir sem lifa með honum ævilangt. Árið 1983 fórst Bakkavík ÁR í innsiglingunni að Eyrarbakka. Þrír bræður voru um borð. Vigfús komst einn af. Hann hélt samt áfram á sjónum og á að baki 50 ár, sem skipstjóri lengst af. Ein af hans uppáhaldsslóðum er Brjálaði hryggurinn.
Vigfús segir sögu sína í Sjóaranum.
Brjálaði hryggurinn
Vigfús ólst upp alveg við hafið.
„Þetta snerist allt um báta á Bakkanum. Og þegar maður var peyi var maður að leika sér í fjörunni. Fjaran var aðalleiksviðið hjá manni. Þá smíðaði maður báta til að draga á eftir sér og svo voru peyjar á eftir manni sem voru hásetar.“
Vigfús fór í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum. Þar voru með honum í bekk tveir menn sem lentu í sjóslysum og sluppu líka.
Hann ætlaði sér að verða sjómaður. „Þetta var svona á þessum litlu stöðum; það var bara ekkert annað í boði,“ segir Vigfús og bætir við að hann hafi aldrei unnið í landi.
Hann segist fyrst hafa gengið á milli báta; þá var hann á rækju. Svo fór hann á Brynjólf ÁR og varð skipstjóri. „Hann var vertíðarbátur. Við vorum á netum, trolli og humar.“
Hann nefnir svo Álaborg frá Eyrarbakka. „Ég var hjá þeim í 16-18 ár; þar sem ég hef stoppað hef ég yfirleitt verið lengi. Svo fór ég af Álaborginni yfir á Skarfinn og svo á Tómas Þorvaldsson. Ég var í 14 eða 15 ár hjá Þorbirninum. Tómas Þorvaldsson var gamli Héðinn og síðan breyttu þeir honum í línubát. Ég var á móti Sæmundi Halldórssyni þar; þar fékk ég eldskírnina á línunni.“
Vigfús hefur verið fiskinn á ferlinum.
„Þetta hefur reddast einhvern veginn. Ég hef aldrei pælt í því, en þetta hefur alltaf gengið upp.“
Brjálaði hryggurinn togaði svolítið í Vigfús. „Ætli það hafi ekki verið veðrið. Alltaf vitlaust veður þar.“
Og í hittifyrra fór hann að fara út á Dohrn-banka og segir hann veiðina þar vera mjög góða. „Og mjög góður fiskur. Hann var allur massaður einhvern veginn. Stífur.“
Vigfús segir að hann hafi verið heppnastur í veiðinni þegar hann var með Brynjólf. „Þá var ég á víkinni – við Vík í Mýrdal – og við vorum á trolli. Það voru tvö höl á sólarhring. Þá brunaði ég í Þorlákshöfn og landaði og svo bara út aftur. Þetta heppnaðist.“
Vigfús segir að það sé óhemjumikið af fiski við landið. Hann er spurður hvort það viti ekki allir í kerfinu um það. „Það sem maður hefur heyrt eins og á Dohrn-bankanum; ég held að þessi fiskur sé ekki inni í kerfinu.“
Eru menn ekkert að auka kvóta í samræmi við alla þessa veiði? „Nei, það er frekar á hinn veginn finnst manni.“
Vigfús var á Örvari SH 777 fram að áramótum en þá var Örvar seldur til Patreksfjarðar. Og núna er hann á Rifsnesi SH 44.
Sjá þáttinn í heild sinni hér.