Matvælastofnun hefur óskað eftir áliti Lyfjastofnunar á því hvort melatónín skuli áfram flokkast sem lyf hérlendis. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Melatónín hefur fram að þessu verið flokkað sem lyf hér á landi og því bannað í matvælum og ekki fáanlegt sem fæðubótarefni. Efnið er hins vegar leyfilegt annarsstaðar í Evrópu og fæst löglega í formi fæðubótarefna. Færst hefur í aukana að lagt sé hald á efni sem innihalda melatónín hér á landi.
Melatónín er hormón sem hefur áhrif á svefn okkar. Það á þátt í að stilla af eðlislæga klukku okkar og stuðlar að því að okkur syfjar á heppilegum tíma á kvöldin og erum vakandi yfir daginn.
Hér á landi eru lyf sem innihalda melatónín lyfseðilsskyld. Slík lyf eru með markaðsleyfi fyrir melatónín í 1 mg magni upp í 5 mg í dagskammti.
Víða um Evrópu, sem og í Bandaríkjunum, er melatónín hins vegar notað í fæðubótarefni. Í Bandaríkjunum er efnið fáanlegt í hærri dagskömmtum en hér á landi, allt frá 0,5 mg upp í 10 mg í dagskammti. Í þeim Evrópulöndum þar sem efnið er fáanlegt sem fæðubótarefni er hægt að finna það í allt að 2 mg í dagskammti.
Sú staðreynd að melatónín sé löglega fáanlegt sem fæðubótarefni víða í löndum í kringum okkur gerir það að verkum að innflutningur á fæðubótarefnum sem innihalda melatónín hefur færst í aukana.
Í tilkynningu Matvælastofnunar segir að stofnunin hafi óskað eftir áliti Lyfjastofnunar um það hvort melatónín skuli áfram flokkast sem lyf hér á landi. Samkvæmt matvælalögum ber Lyfjastofnun að skera úr um þegar vafi leikur á því hvort einstök efnasambönd teljist lyf.
„Endurskoðun á skilgreiningu og setning hámarks dagskammts melatóníns í fæðubótarefni hér á landi er mikilvægt skref í því að tryggja öryggi neytenda í landinu og koma í veg fyrir ólögmæta hindrun á markaðssetningu löglega framleidds melatóníns, sem fæðubótarefni,“ segir í tilkynningunni.