Björn Birgisson segir næstum allt benda til þess að boða þurfi til nýrra kosninga.
Samfélagsrýnirinn frá Grindavík, Björn Birgisson er iðinn við að birta færslur á Facebook um menn og málefni líðandi stundar og eru færslur hans að jafnaði lesnar vel. Í nýjustu færslu sinni segir hann stjórnarflokkana ekki ná saman í stórum málum og að skoðanabilið á milli þeirra fari breikkandi og því þurfi að boða til nýrra kosninga. Færsluna má lesa hér að neðan:
„Finnst nánast allt benda til þess að ríkisstjórnin eigi að fara frá og boða til kosninga.
Hef stíft á tilfinningunni að hörðustu stuðningsmenn stjórnarflokkanna séu mér sammála um það margir hverjir.
Það sjá allir sem vilja að stjórnarflokkarnir eru ekki að ná saman í mörgum stórum málum og skoðanabilið á milli þeirra fer breikkandi og verður meira áberandi með hverjum deginum sem líður.
Sem er afleit þróun þar sem erfið úrlausnarefni hrannast upp, en eru sett á bið vegna mismunandi skoðana stjórnarflokkanna.
Afleiðing af því er að kannanir mæla síminnkandi stuðnig við ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana.
Ekkert er í farvatninu sem líklegt er til að snúa þeirri þróun við.
Þetta sér og skilur Katrín Jakobsdóttir mætavel, því ber henni að skila inn umboðinu og láta boða til kosninga.“