Leikritaskáldið Ólafur Haukur Símonarson skrifaði færslu á dögunum þar sem hann talar um afsökunarbeiðnir þjóða. Talar hann til að byrja með um afsökunarbeiðni forseta þýskalands, á glæpum Þjóðverja gegn íbúum Tansaníu þegar landið var nýlenda Þýskalands. „Líklega biðjast menn aldrei of oft afsökunar. Já, hvers vegna ekki að biðjast afsökunar ef það kostar ekkert, getur orðið til einhvers léttis fyrir einhvern og tryggt ofbeldisþjóðinni betri viðskiptakjör? Það er nokkuð víst að bæði afkomendum þýsku nýlendufautanna og afkomendum fórnarlambanna í Tansaníu líður betur eftir afsökunarbeiðni Franks-Walters Steinmeiers.“
Í framhaldinu spyr Ólafur Haukur hvort Íslendingar ættu þess kost að biðjast afsökunar og líða mun betur á eftir. „Um það bil 60% gena íslenskra kvenna eru rakin til írskra og skoskra áa þeirra. Þessum kvennablóma var rænt af bólugröfnum, kvenmannslausum og landlausum norskum bændasonum, ribböldum og glæpamönnum á flótta til Íslands undan norsku konungsvaldi,“ skrifaði Ólafur og bætti við: „Nú er lag að Íslendingar afsaki það ódæði að ræna greindustu, skapmestu og þokkafyllstu konum Norður-Evrópu til að tryggja afkomu sína og afkvæma sinna á óvistlegri eyju við Grænlands strendur sem Ísland nefnist.“