Tómas Ingvarsson, faðir Ingva Hrafns, sem tók sitt eigið líf á Litla hrauni á dögunum, eftir að hafa beðið fangayfirvöld um hjálp en ekki fengið, vill að Fangelsismálastofnun ríkisins greiði fyrir útför sonar síns.
„Takk fyrir allar samúðarkveðjur og hlýhug sem ég og mín fjölskylda höfum fengið,“ segir Tómas Ingvarsson, í tilkynningu til Mannlífs. Tómas býr í Noregi en er væntanlegur til Íslands á næstu dögum, vegna komandi útfarar sonar síns, Ingva Hrafns.
Segist Tómas ekki vita hvernig málið fari en að hann verði að „draga dómsmálaráðherra og Fangelsismálastofnun og forstöðumann Litla hrauns til ábyrgðar á þessu gjörningi“. Þá segist hann fara fram á það að Fangelsismálastofnunin greiði fyrir útför Ingva Hrafns. Tómas segir einnig að Páll Winkel, fangelsismálastjóri hafi enn ekki haft samband við sig eða fjölskylduna. „Páll Winkel hefur ekki haft samband við mig eða mína fjölskyldu og vottað samúð sína“, segir Tómas og bætir við: „ Ingvi Hrafn Tómasson var settur inn án dóms og laga, hver stýrir þessu?“