Vefsíða Sports Direct sýnir ekki rétt verð fyrir íslenskan markað, jafnvel þó Ísland sé sérstaklega valið og hluti vefsíðunnar á íslensku.
Meðal annars er bent á þetta í Facebookhópnum „Vertu á verði – eftirlit með verðlagi“, en þess ber að geta að Verðlagseftirlit ASÍ er stofnandi hópsins og hefur yfirumsjón með honum.
Það er kona að nafni Inga sem bendir á villandi þjónustu Sports Direct í færslu í hópnum.
Þar lýsir hún því hvernig dóttir hennar hafi fundið skó á vefsíðu Sports Direct sem hana langaði til að kaupa. Verðið á skónum var merkt í krónum á vefsíðunni, en uppgefið verð var annars vegar 14.235 krónur og hinsvegar 21.158 krónur. Þegar mæðgurnar fóru í Sports Direct kom það hinsvegar í ljós að skórnir kostuðu tæplega 36.000 krónur. Sá sem aðstoðaði þær í versluninni tjáði þeim að verðin sem þær hefðu séð á netinu væru verðin í Bretlandi. Engu breytti að á síðunni væru þau merkt í krónum.
„Síðan er is.sportsdirect þannig ég skil ekki hvernig þetta hreinlega er leyfilegt,“ segir Inga í færslu sinni.
Með færslunni fylgja myndir til sönnunar. Þar er ekki hægt að sjá annað en nákvæmlega það sem Inga lýsir, að skórnir séu sannarlega á lægra verðbilinu, í íslenskum krónum. Undir hvorri tegund af skóm eru merkingarnar:
NIKE – Air Max 97 – Dömur Strigaskór. Undir lýsingunni eru svo verðin í krónum: 14.235 kr og 21.158 kr.
Ekkert við lýsinguna gefur til kynna að um sé að ræða annað en íslensk verð sem eigi við verslun Sports Direct á Íslandi. Til að mynda má sjá orðin „stærð“, „litur“ og „stærðartafla“.
Þegar slegið er inn „Sports Direct Ísland“ í leitarvél er síða undir léninu is.sportsdirect.com það fyrsta sem kemur upp. Þegar smellt er á hlekkinn kemur sannarlega upp síða sem virðist tilheyra íslenskum markaði. Þar má meðal annars sjá valmöguleikana: „Herrar“, „Konur“, „Krakkar“, „Íþróttir“ og „Vörumerki“. Neðst á síðunni er hægt að velja Ísland sem markað og íslenskar krónur sem gjaldmiðil.
„Þetta er samt rosalega loðið sérstaklega fyrir krakka þegar þú velur iceland þá kemur upp lindir og alles þannig það er mjög erfitt að sjá að þetta sé bresk síða,“ segir Inga í athugasemd undir færslunni.
Aníta tekur upp hanskann fyrir Sports Direct í athugasemd sinni:
„Breskur vefur, breskt verð. Getur pantað þaðan, það er fljótt að koma, en þarft að borga sendingu og toll við komu. Þeir auglýstu fyrir nokkru síðan að þetta væri ekki þeirra síða og ekki hægt að sækja til þeirra það sem er pantað… Endar líklega í svipuðu verði eða nálægt því…“
Inga bendir á enn eitt misræmið á verðum verslunarinnar:
„Svo ef þú ferð í bretland ekki ísland á síðunni ertu kominn með þriðja verðið á þessum blessuðu skóm 12þ þarna ef þú setur yfir í íslenskt.“
Fleiri eru óánægðir með þjónustu og verðmerkingar Sports Direct, eins og Jóhann:
„Var einu sinni að versla þarna með vini mínum og það var vitlaus verðmiði á bol sem hann ætlaði að kaupa. Bolurinn var dýrari en þessi verðmiði sýndi en þeir vildu ekki taka ábyrgð á þessum mistökum, og hann þurfti að borga „rétta verðið“.“
„Ef þessi auglýsing er á einhverju auto-translate, en í raun á vegum þeirra í Englandi þá er lítið hægt að gera í því. Ef hún er búin til af íslenska fyrirtækinu þá er hægt að gera eitthvað – en líkur eru ekki sterkar. Hinsvegar finnst mér þessi verðmunur ansi sláandi, svona á milli landa,“ segir Hallgerður.