Vinnueftirlitið svarar ekki efnislega fyrirspurnum Mannlífs um skýrslu eftirlitsins vegna rannsóknar á alvarlegu slysi í Grenivík í fyrra. Sérfræðingar rifu hana í sig og sögðu hana illa unna.
Á dögunum birti Mannlíf frétt um skýrslu sem gerð var vegna alvarlegs slyss í Grenivík í fyrra. Miðillinn fékk nokkra sérfræðinga til að rýna í skýrsluna en þeir komust að þeirri niðurstöðu að hún væri hroðvirknislega gerð og á henni væru fjöldi galla.
Sjá einnig: Segja skýrslu Vinnueftirlitsins á alvarlegu slysi illa unna:„Hroðvirknislega gert og ófullnægjandi“
Mannlíf sendi tölvupóst á Vinnueftirlitið og bað um viðbrögð við áfellisdómi sérfræðinganna á skýrslunni. Þá spurði Mannlíf einnig hvers vegna ekki sé lengur notast við gátlista sem notaður var í áratugi til að tryggja gæði rannsókna.
Svarið sem Mannlífi barst er ekki upp á marga fiska:
„Vinnueftirlitið starfar samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þeir aðilar í málum sem stofnunin hefur til efnislegrar meðferðar og eru ósáttir við málsmeðferð stofnunarinnar geta leitað til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem fer með almennar stjórnunar- og eftirlitsheimildir með störfum hennar.“
Til gamans má geta þess að fyrir stuttu viðurkenndi upplýsingafulltrúi Vinnueftirlitsins í svari til Mannlífs, að stofnunin færi ekki að lögum um að læknir sé starfandi hjá þeim en þannig hefur það verið síðustu fjögur árin.
Sjá einnig: Vinnueftirlitið viðurkennir lögbrot
Mannlíf hefur leitað viðbragða frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og mun birta svörin um leið og þau birtast, gerist það á annað borð.